KÍNVERSKA skipasmíðastöðin Chang Jang Shipping Group átti lægsta tilboðið í smíði nýs rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnunina. Tilboðið er tæpum 200 milljónum kr. lægra en tilboð annarrar kínverskrar stöðvar, sem bauð næstlægst í verkið, en þriðja lægsta tilboðið kom frá skipasmíðastöð í Tævan.
Kínverjar lægstbjóðendur í smíði rannsóknaskips

Eru með sjö skipasmíða-

stöðvar við Jangste-fljót



Starfsmenn fleiri en allir vinnufærir Íslendingar



KÍNVERSKA skipasmíðastöðin Chang Jang Shipping Group átti lægsta tilboðið í smíði nýs rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnunina. Tilboðið er tæpum 200 milljónum kr. lægra en tilboð annarrar kínverskrar stöðvar, sem bauð næstlægst í verkið, en þriðja lægsta tilboðið kom frá skipasmíðastöð í Tævan. Umboðsaðili lægstbjóðanda hér á landi er fyrirtækið Varðeldur, sem stofnað var árið 1986 og er rekið af Þorbirni Friðrikssyni, efnafræðingi, og syni hans, Steingrími Þorbjarnarsyni, en þeir hafa um nokkurra ára skeið verið umboðsaðilar fyrir kínverska fyrirtækið, sem reyndar rekur ekki aðeins eina skipasmíðastöð heldur sjö, allar við Jangste-fljótið. Auk þess er fyrirtækið í alls konar öðrum rekstri, og rekur fjölda annarra fyrirtækja og verksmiðja.

Aðspurður hvernig það hefði komið til að þeir feðgar gerðust umboðsaðilar kínversku skipasmíðastöðvarinnar, sagði Þorbjörn að það ætti sér langan feril. "Sonur minn var við kínverskunám í Kína á árunum 1985­1988. Hann giftist kínverskri stúlku, Xu Wen að nafni sem starfar sem óperusöngkona, og búa þau nú hér á landi og eiga tvo stráka, en fjölskylda hennar er mjög tengd inn í stjórn skipasmíðastöðvarinnar," sagði Þorbjörn og bætti við að ekkert gerðist í Kína nema í gegnum fjölskyldutengsl. Þá hafa þeir feðgar staðið að útgáfu ferðamannabæklinga um Ísland um nokkurt skeið, en nærri lætur að um þrjú þúsund kínverskumælandi ferðamenn hafi sótt Ísland heim í sumar, aðallega frá Tævan.

Hefur allt framleiðslu- ferlið í hendi sér

"Þetta er fyrsta stóra verkefnið, sem við bjóðum í á Íslandi fyrir kínversku skipasmíðastöðvarnar, enda hefur ekki verið mikið um skipasmíðar fyrir Íslendinga á þessu tímabili. Þær hafa nánast legið í láginni þó alltaf hafi eitthvað verið um fyrirspurnir endrum og sinnum."

Að sögn Þorbjarnar getur kínverska fyrirtækið í raun útvegað allan þann búnað, sem í skipið á að fara, en í tilboðinu er gert ráð fyrir því að spilbúnaðurinn komi frá Belgíu þar sem hann þarf að vera nokkuð sérhæfður fyrir íslenskar aðstæður. Kostnaður vegna spilbúnaðar er inni í tilboði stöðvarinnar sem hljóðar upp á sem svarar um 918 milljónir króna.

Að sögn Þorbjarnar getur stöðin boðið svo hagstætt verð í smíðina vegna þess að fyrirtækið hefur allt framleiðsluferlið í hendi sér. "Flestallt sem það gerir, gerir það á eigin vegum og án þess að þurfa að kalla til verktaka. Þetta er ein röð af fyrirtækjum, alveg frá upphafi til enda. Þess vegna geta þeir í raun undirboðið hvern sem er ef þeim sýnist svo, en fyrirtækið, sem er ríkisrekið, hefur að mestu verið byggt upp eftir byltinguna 1949. Þetta fyrirtæki smíðar og reyndar rak þangað til fyrir fáum árum allan farþegaferjuflotann á Jangste- fljóti sem er óhemju stór og glæsilegur. Það smíðar ákaflega fjölbreytileg skip, en aðalstyrkurinn hefur legið í smíði alls konar sérhæfðra skipa og ferja, en einnig hafa þarna verið smíðaðir ótal togarar og hafrannsóknaskip, m.a. fyrir Kínverja, Japani, Hong Kong-búa og Bandaríkjamenn. Hvað vinnuafl snertir, er mjög erfitt að fara með tölur þegar kemur að Kína, en fyrirtækið hefur líklega mun fleiri menn í vinnu en alla vinnandi Íslendinga. Þetta er eitt af þessum gríðarlega stóru fyrirtækjum og liggur styrkur þess í því hversu mikil og fjölbreytt framleiðsla er innan vébanda fyrirtækisins sjálfs."

Ódýrt vinnuafl

Mjög erfitt er fyrir önnur lönd að keppa við skipasmíðar í Kína, að sögn Þorbjarnar. "Kínverjar hafa yfir ódýru vinnuafli að ráða, eru sjálfum sér nógir í hráefnisöflun og hafa orðið mjög góðan stáliðnað. Þeir byggja nú orðið óhikað eftir stífustu reglum hér á Vesturlöndum og geta smíðað eftir hvaða klassa sem er."

Þorbjörn segist ekki vera í nokkrum vafa um að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda í verkið. "Skipasmíðastöðin er ákveðin í því að gera þetta vel og við munum svara öllum þeim kröfum, sem gerðar verða alveg hiklaust, og bætt um betur ef með þarf. Við munum standa að smíðinni nákvæmlega eins og krafist er í útboðslýsingu," sagði Þorbjörn sem á von á því að smíðin komi annaðhvort til með að fara fram í Shanghai eða Nanging.

Ekki liggur fyrir ákvörðun um hver þeirra fimmtán aðila, sem buðu í verkið, kemur til með að fá það. Að líkindum verður gengið til samninga um smíðina í febrúarbyrjun nk.

Hönnun útskotsbúnaðar fyrir björgunarbáta

Varðeldur hefur undanfarin þrjú ár einbeitt sér að hönnun og þróun á útskotsbúnaði fyrir björgunarbáta í samvinnu við Baader og Formax, sem koma til með að framleiða búnaðinn. Það verkefni er nú á lokastigi og um þessar mundir vinnur Iðntæknistofnun að prófun búnaðarins. Að sögn Þorbjarnar er nauðsynlegt að nýta nútímatækni til að gera sjálfvirkan sleppibúnað sem öruggastan og virkastan. Við hönnunina hafi verið reynt að tengja saman þá tækni, sem notuð er vegna öryggistækja í flugvélum, geimförum og bílum. Búnaðurinn væri knúinn svokölluðum knýiefnum, eða sprengiefnum, og þar sem að fyrirtækið væri að vinna með sprengiefni, hafi þeir feðgar í þónokkrum mæli einbeitt sér að framleiðslu flugelda fyrir áramót.