ALÞJÓÐLEG fjölmiðlaumfjöllun um flutning háhyrningsins Keiko til Íslands yrði stærri í sniðum en umfjöllun um leiðtogafund Ronalds Reagans og Mikhaels Gorbatsjovs, að mati ráðgjafarfyrirtækisins Manna og málefna sem veitir Free Willy Keiko Foundation ráðgjöf. Það er mat manna að þetta yrði mesta auglýsing sem Ísland gæti fengið því viðbúið væri að tugmilljónir manna fylgdust með málinu.
Meiri fjölmiðlaumfjöllun um Keiko en leiðtogafundinn

Yrði mesta auglýsing

sem Ísland gæti fengið

Háhyrningurinn Keiko skipar hærri sess í hjörtum Bandaríkjamanna og Evrópubúa en marga gæti grunað. Guðjón Guðmundsson stiklar hér á sögu Keiko sem hugsanlega fær að sameinast fjölskyldu sinni úti fyrir Austfjörðum á næsta ári.

ALÞJÓÐLEG fjölmiðlaumfjöllun um flutning háhyrningsins Keiko til Íslands yrði stærri í sniðum en umfjöllun um leiðtogafund Ronalds Reagans og Mikhaels Gorbatsjovs, að mati ráðgjafarfyrirtækisins Manna og málefna sem veitir Free Willy Keiko Foundation ráðgjöf. Það er mat manna að þetta yrði mesta auglýsing sem Ísland gæti fengið því viðbúið væri að tugmilljónir manna fylgdust með málinu. Umfjöllunin gæti eflt ímynd Íslands sem náttúruparadísar og haft margvísleg hliðaráhrif í ferðamennsku til landsins, til að mynda á hvalaskoðunarferðir.

Free Willy Keiko Foundation í Bandaríkjunum hefur lýst áhuga sínum á að flytja Keiko til Íslands og láta hann aðlagast lífríki sjávar í eitt til tvö ár áður en honum verður endanlega sleppt.

Gífurlegur áhugi er fyrir Keiko meðal almennings jafnt í Bandaríkjunum sem Evrópu, áhugi sem hugsanlega er Íslendingum að nokkru leyti framandi. Það er ekki síst flutningurinn á Keiko frá Mexíkó til Oregon og kvikmyndirnar tvær um háhyrninginn sem hafa kynt undir ástríðufullum tilfinningum í hans garð, ekki síst hjá börnum og unglingum.

Margir þekktir kvikmyndaleikarar vestan hafs hafa stutt Free Willy Keiko samtökin og vilja fylgjast grannt með afdrifum Keiko. Talið er líklegt að verði háhyrningurinn fluttur hingað til lands fylgi með frítt föruneyti kvikmyndastjarna.

Slæmur aðbúnaður í Mexíkó

Háhyrningurinn Keiko var fangaður skammt frá Eskifirði árið 1979 og var hafður í Sædýrasafninu allt fram til 1982. Þá var hann fluttur til Kanada, nánar tiltekið í Marineland sjávardýragarðinn í Ontario. Þar var hann þjálfaður og hélt sína fyrstu sýningu sama ár. Um þetta leyti fór fyrst að bera á sárum á skrápi háhyrningsins.

Keiko var seldur til Reino Aventura í Mexíkóborg fyrir um 25 milljónir ÍSK árið 1985. 1992 lék hann aðalhlutverkið í kvikmyndinni Free Willy, Warner Bros. framleiddi. Kvikmyndin naut flestum að óvörum mikilla vinsælda og Keiko varð heimilisvinur margra milljóna skólabarna í Bandaríkjunum. Síðar var gerð framhaldsmynd um Keiko.

Í nóvember 1993 birtist grein í Life Magazine þar sem greint var frá ófullnægjandi aðstæðum Keiko í Mexíkó og aðbúnaði sem hafði komið niður á heilsu hans. Í framhaldi af greininni fékk Warner Bros. yfir sig skriðu af hringingum og bréfum þar sem kvikmyndafyrirtækið var hvatt til að taka mál Keikos í sínar hendur. Ári síðar voru samtökin Free Willy Keiko Foundation stofnuð með fjögurra milljóna dollara stofnframlagi frá Warner Bros. og ónafngreindum gefanda.

Hefur þyngst um eitt tonn

Í fyrra var Keiko fluttur frá Mexíkó til Oregon í sjávardýraaðstöðu Free Willy Keiko samtakanna.

Keiko vegur nú um 4.810 kg og hefur þyngst um tæpt eitt tonn frá því hann var fluttur frá Mexíkó til Oregon. Hann er 21 fet á lengd. Frá því hann kom til Bandaríkjanna hefur heilsa hans batnað verulega, sárin á skrápnum hafa gróið, vöðvar hans eru stæltari og hjartastarfsemin heilbrigðari. Þegar hann kom til Oregon var hann sljór og áhugalaus um umhverfi sitt.

Hugsað er um Keiko eins og ungabarn í lauginni í Oregon. Þar sinna honum fjórir spendýrafræðingar sem eru í fullu starfi. Keiko étur tæp 100 kg af fæðu á dag, mestmegnis síld, smokkfisk, loðnu og sardínur. Á hverjum degi er hann látinn gera æfingar sem styrkja hjartavöðvana og örva andlegt atgervi hans. Spendýrafræðingarnir synda með Keiko í lauginni og nudda á honum skrápinn.

David Philips, stofnandi Free Willy Keiko Foundation, hitti forsætisráðherra og forsvarsmenn í viðskiptalífinu að máli í byrjun vikunnar. Hann segir að tilgangurinn með heimsókninni nú hafi einnig verið sá að kynna fyrir þeim gott heilsufar háhyrningsins og að heyra viðhorf ráðamanna og heimamanna á Eskifirði til þess að Keiko verði fluttur aftur til Íslands.

Annað Evrópuland kæmi til greina

"Í þriðja lagi ræddum við um jákvæða reynslu þeirra landa sem hafa verið gestgjafar Keikos. Sú reynsla er í formi aukins fjölda ferðamanna, landkynningar og vísindalegs ávinnings," sagði Philips.

Hann kveðst búast við því að margir ferðamenn, bæði frá Bandaríkjunum og Evrópu, legðu leið sína til Íslands til þess að sjá Keiko í sínum heimahögum. Í Oregon komi um ein milljón manns á hverju ári til þess að sjá háhyrninginn.

Philips segir að til greina komi að flytja Keiko til annars Evrópulands ef ekki reynist unnt að flytja hann hingað. "Ísland er fyrsti valkosturinn því þar eru aðstæðurnar bestar. Þar eru miklar síldveiðar og mestur fjöldi háhyrninga. Fjölskylda hans ætti að vera við landið, hitastig sjávar og hreinleiki hentar fullkomlega. Ísland er því besti kosturinn og við höldum að Keiko eigi mesta möguleika til að aðlagast úti fyrir íslenskum ströndum," sagði Philips.

KEIKO í lauginni í Oregon. Hann vegur 4.810 kg og étur 100 kg af fæðu á dag.