VACLAV Klaus, sem sagði af sér sem forsætisráðherra Tékklands um helgina, tilkynnti í gær að hann hygðist sækjast eftir endurkjöri sem leiðtogi flokks síns, en með því er talið að líkur á nýjum þingkosningum hafi aukizt til muna.

Líkur á

kosningum

aukast í Tékklandi

Prag. Reuters.

VACLAV Klaus, sem sagði af sér sem forsætisráðherra Tékklands um helgina, tilkynnti í gær að hann hygðist sækjast eftir endurkjöri sem leiðtogi flokks síns, en með því er talið að líkur á nýjum þingkosningum hafi aukizt til muna.

Klaus, sem ekki ætlaði að taka sæti í nýrri ríkisstjórn, sagði af sér í kjölfar harðrar innanflokksdeilu í Borgaralega lýðræðisflokknum, ODS, sem hann stofnaði fyrir átta árum. Deilan snerist um greiðslur í kosningasjóð ODS. Nú hefur Klaus lagt allt undir í baráttunni við keppinauta innan flokksins um forystuna í honum með því að sækjast eftir endurkjöri í formannssætið á sérstöku flokksþingi hinn 13. desember nk.

Þar sem Klaus nýtur mikils stuðnings almennra flokksmanna utan flokksforystunnar á hann sigur nær vísan í formannskjörinu, en með endurkjöri hans er klofningur vís í flokksforystunni og milli miðju- og hægriflokkanna sem mynduðu samsteypustjórn Klaus.