VEGNA umfjöllunar fjölmiðla um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sem þegar hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, í máli gegn Húsnæðisnefnd Reykjavíkur þar sem ágreiningur var um innlausnarverð félagslegrar íbúðar vill Húsnæðisnefnd Reykjavíkur koma eftirfarandi á framfæri:
Yfirlýsing frá Húsnæðisnefnd

VEGNA umfjöllunar fjölmiðla um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sem þegar hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, í máli gegn Húsnæðisnefnd Reykjavíkur þar sem ágreiningur var um innlausnarverð félagslegrar íbúðar vill Húsnæðisnefnd Reykjavíkur koma eftirfarandi á framfæri:

Umrædd íbúð var á sínum tíma byggð af Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar en Húsnæðismálastofnun ríkisins, f.h. ríkissjóðs Íslands, sá um sölu íbúðarinnar og útgáfu afsals til kaupanda. Íbúð þessi var háð kvöðum m.a. um sölu og framleigu í samræmi við lög nr. 19/1965 og reglugerð nr. 122/1968 en lögum og reglugerðum er varða sölumeðferð félagslegra íbúða hefur oft verið breytt í tímans rás.

Stjórn Verkamannabústaða í Reykjavík, nú Húsnæðisnefnd Reykjavíkur, var síðar falið að hafa umsjón með innkaupum og sölu íbúða byggðra af Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar. Húsnæðisnefnd Reykjavíkur hefur í einu og öllu farið eftir útreikningsreglum sem lög og reglugerðir hafa kveðið á um hverju sinni.

Húsnæðisnefnd Reykjavíkur er nauðsyn á að lög og reglur séu skýr og afdráttarlaus og hafin yfir allan vafa. Útreikningar hennar hafa ætíð verið staðfestir af starfsmönnum Húsnæðisstofnunar ríkisins, enda er það skilyrði fyrir heimild til innkaupa og endursölu félagslegra íbúða. Í því tilfelli sem dómurinn fjallar um hafði útreikningur á innkaupsverði íbúðarinnar verið kærður til Húsnæðismálastjórnar ríkisins sem staðfesti að útreikningurinn væri réttur.

Bent skal á að hagnaður sem verður við innlausn og endursölu íbúða rennur til Byggingarsjóðs verkamanna en ekki til Borgarsjóðs né Húsnæðisnefndar Reykjavíkur, sem einungis er þjónustuaðili við innlausn og endursölu íbúðanna. Að ofansögðu er ljóst að Húsnæðisnefnd Reykjavíkur og starfsmenn hennar unnu að frágangi umræddra viðskipta í samræmi við lög og reglur eins og þær voru túlkaðar af Húsnæðisstofnun ríkisins í umboði félagsmálaráðuneytis og ríkissjóðs.