STJÓRN Indlands ákvað í gær að leggja til við K.R. Narayanan forseta að hann leysti upp þingið og boðaði til kosninga í lok febrúar eða byrjun mars. Stjórnin hugðist leggja þessa tillögu fyrir forsetann í gærkvöldi,

Ríkisstjórn Indlands fer

fram á kosningar

Nýju Delhí. Reuters.

STJÓRN Indlands ákvað í gær að leggja til við K.R. Narayanan forseta að hann leysti upp þingið og boðaði til kosninga í lok febrúar eða byrjun mars.

Stjórnin hugðist leggja þessa tillögu fyrir forsetann í gærkvöldi, en hann hafði haldið að sér höndum í von um að flokkarnir næðu samkomulagi um nýja stjórn til að koma í veg fyrir að efna þyrfti til nýrra kosninga nú þegar kjörtímabilið er aðeins hálfnað.

Stjórnarkreppa varð á Indlandi í vikunni sem leið þegar Kongressflokkurinn hætti stuðningi sínum við minnihlutastjórn Samfylkingarinnar, bandalags 15 flokka, eftir að hún neitaði að slíta samstarfinu við einn stjórnarflokkanna. Nefnd, sem rannsakað hefur morðið á Rajiv Gandhi, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtoga Kongressflokksins, hafði bendlað flokkinn, Dravida Munnetra Kazhagam (DMK), við morðið.

Minnihlutastjórn Samfylkingarinnar var mynduð með stuðningi Kongressflokksins á liðnu ári til að koma flokki þjóðernissinnaðra hindúa, Bharatiya Janata, frá völdum. Stjórn Bharatiya Janata ríkti aðeins í 12 daga og var sökuð um að beita indverska múslima misrétti.

Kongressflokkurinn reyndi í fyrstu að mynda stjórn með nokkrum af flokkum Samfylkingarinnar en það tókst ekki. Hann gerði síðan lokatilraun til að mynda stjórn með Samfylkingunni en viðræðurnar fóru strax út um þúfur vegna deilunnar um DMK.

Bharatiya Janata-flokkurinn reyndi að mynda stjórn með hluta Kongressflokksins en kvaðst í gær vera tilbúinn í kosningabaráttu.