Aðvörun eftir að straumur kom á
RAFMAGN var tekið af stórum hluta Seljahverfis í Breiðholti eða af um það bil 500 heimilum frá kl. eitt til sex í fyrrinótt. Var íbúum send aðvörun vegna þessa í pósti en tilkynningin barst þó ekki í póstkassa á fjölda heimila fyrr en í gær eftir að straumur var aftur kominn á. Talsmenn Rafmagnsveitunnar segja sökina liggja hjá Pósti og síma.
Að sögn Guðmundar Rafns Ingimundarsonar hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, var rafmagn tekið af hverfinu vegna endurnýjunar og viðhalds í dreifistöð. Guðmundur sagði að Rafmagnsveitan hefði ákveðið að senda íbúum hverfisins aðvörun vegna þessa í pósti að þessu sinni í stað þess að birta tilkynningu í útvarpi. "Við höfðum hringt í póstinn og spurst fyrir um með hvaða fyrirvara þeir þyrftu að fá tilkynninguna svo hún kæmist á heimilin á réttum tíma. Við fengum þau svör að nægilegt væri að fá hana einum degi áður en hún yrði borin út. Það hefur greinilega brugðist því fólk fékk hana ekki í hendur fyrr en þetta var yfirstaðið," sagði hann. Guðmundur sagði að töluvert hefði verið um að fólk hringdi í Rafmagnsveituna í gær vegna þessa og kvartaði. Ekki væri vitað til þess að rafmagnsleysið hefði valdið tjóni á heimilum.