MINNIHLUTINN í bæjarstjórn Akureyrar, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags, átaldi harðlega í bókun sem lögð var fram á fundi á þriðjudag að bæjarstjóri skyldi hafa undirritað samþykkt að breytingu í Kaupvangsstræti 23 í íbúð. Fram kemur í bókun minnihlutans að með þessari ákvörðun sé gengið þvert á markaða stefnu bæjarstjórnar og ítrekaðan vilja menningarmálanefndar.
Bæjarstjórn samþykkir að breyta húsnæði í Grófargili í íbúð Minnihluti segir gengið þvert á stefnu bæjarstjórnar

MINNIHLUTINN í bæjarstjórn Akureyrar, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags, átaldi harðlega í bókun sem lögð var fram á fundi á þriðjudag að bæjarstjóri skyldi hafa undirritað samþykkt að breytingu í Kaupvangsstræti 23 í íbúð. Fram kemur í bókun minnihlutans að með þessari ákvörðun sé gengið þvert á markaða stefnu bæjarstjórnar og ítrekaðan vilja menningarmálanefndar. Vildu bæjarfulltrúarnir ekki breyta frá fyrri stefnu og voru því mótfallnir samþykktinni.

Til umfjöllunar í 17 mánuði

Sigurður J. Sigurðsson, Sjálfstæðisflokki, sagði að málið hefði velkst um í bæjarkerfinu í 17 mánuði, en eigandi húsnæðisins hefði sent erindi til bygginganefndar um að fá leyfi til að breyta húsnæðinu í löglega íbúð í byrjun júlí í fyrra. Þá um sumarið fór málið fyrir menningarmálanefnd sem ekki sá ástæðu til að breyta viðmiðun um nýtingu húsnæðisins, en það er hluti af Listamiðstöðinni í Grófargili og ætlað til starfsemi sem á einhvern hátt tengist listum. Málið var tekið fyrir aftur bæði í byggingarnefnd og menningarmálanefnd og var komið til bæjarstjórnar í mars síðastliðnum. Erindið var enn á ný tekið fyrir í byggingarnefnd í september og var þá tekið jákvætt í að breyta húsnæðinu í löglega íbúð að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Á fundi bæjarstjórnar í vikunni var svo samþykkt með atkvæðum fulltrúa meirihlutans að heimila umbeðna breytingu á húsnæðinu.

Taldi Sigurður einsýnt að þetta myndi draga dilk á eftir sér, kæmu fleiri slík erindi fram þyrfti einnig að samþykkja þau. "Það sem fyrst og fremst er gagnrýnivert er að með þessu er verið að ganga þvert á þá stefnu sem bæjarstjórn hefur mótað varðandi nýtingu húsnæðis á þessu svæði," sagði Sigurður.

Sigríður Stefánsdóttir, Alþýðubandalagi, sagðist líta á það sem mistök hjá bæjarstjóra að samþykkja breytinguna, fát hefði gripið um sig þegar uppgötvaðist að kaupsamningum hefði ekki verið þinglýst og fleiri mistök gerð í kjölfarið.

Samningi aldrei þinglýst

Jakob Björnsson bæjarstjóri upplýsti að þegar Akureyrarbær hefði keypt húseignir í Grófargili hefðu verið settar kvaðir í kaupsamning, m.a. um þá starfsemi sem fram ætti að fara í húsnæðinu en þessum samningum var aldrei þinglýst. Kaupanda hefði með öllu verið ókunnugt um þessar kvaðir og farið af stað með breytingar í góðri trú. Nefndi bæjarstjóri að íbúðin væri þannig innréttuð að þar gæti farið fram listastarfsemi. Gísli Bragi Hjartarson, Alþýðuflokki, var harðorður í garð menningarmálanefndar vegna afstöðu hennar og nefndi að eigandinn hefði lagt út um 17 milljónir króna vegna kaupa á húsnæðinu og breytinga á því.