EFTA-dómstóllinn í Lúxemborg sendi í gær frá sér ráðgefandi álit í máli norska þingmannsins Franks Gundersen gegn Óslóborg vegna synjunar á útgáfu vínsöluleyfis. Niðurstaða dómstólsins er sú að með landslögum megi ákveða að aðeins megi selja vín og aðra áfenga drykki í einkasölu á vegum ríkisins,
EFTA-dómstóllinn telur heimilt að selja áfengi í ríkiseinkasölu leiði það ekki til mismununar framleiðenda

Núverandi kerfi í Noregi

stuðlar að mismunun

EFTA-dómstóllinn í Lúxemborg sendi í gær frá sér ráðgefandi álit í máli norska þingmannsins Franks Gundersen gegn Óslóborg vegna synjunar á útgáfu vínsöluleyfis. Niðurstaða dómstólsins er sú að með landslögum megi ákveða að aðeins megi selja vín og aðra áfenga drykki í einkasölu á vegum ríkisins, þó að því tilskildu að fyrirkomulagið leiði ekki til mismununar milli innfluttra vara og erlendrar framleiðslu. Hins vegar geti núverandi fyrirkomulag áfengissölu í Noregi falið í sér mismunun.

Forsaga málsins er sú að Gundersen, sem situr á Stórþinginu fyrir Framfaraflokkinn, fór fram á leyfi til að opna verzlun með léttvín. Gundersen vísaði til þess að í Noregi er heimilt að selja bjór að styrkleika 2,5% til 4,75% í verzlunum. Óslóborg neitaði honum um vínsöluleyfið og benti á að samkvæmt norskum lögum má aðeins selja léttvín í ríkiseinkasölunni, Vinmonopolet.

Gundersen fór í mál við borgina og leitaði héraðsdómur í Ósló álits EFTA-dómstólsins í málinu. Samkvæmt fréttatilkynningu frá dómstólnum er niðurstaða hans sú, að smásala á víni falli undir 16. grein EES-samningsins, um ríkiseinkasölur í viðskiptum, en ekki undir ákvæði samningsins um magntakmarkanir á innflutningi.

Áfengiseinkasala heimil

Dómstóllinn telur að með landslögum megi ákveða að aðeins megi selja vín og aðra áfenga drykki í ríkiseinkasölu, þó að því tilskildu að fyrirkomulagið leiði ekki til mismununar milli innfluttra vara og innlendrar framleiðslu.

Dómurinn telur einnig að vín og aðrir áfengir drykkir, sem innihalda meira en 4,75% af vínanda, sæti sömu meðferð samkvæmt norskum lögum, en þessar vörur má eingöngu selja í verzlunum Vinmonopolet. Hins vegar telur dómstóllinn að norsk löggjöf leiði til mismunandi meðferðar á áfengum drykkjum á styrkleikabilinu 2,5% til 4,75%, þar sem selja megi bjór af þessum styrkleika utan ríkiseinkasölunnar en ríkiseinkasalan hefur einkarétt á dreifingu víns og annarra áfengra drykkja. Dómstóllinn telur þetta fyrirkomulag geta falið í sér mismunun, sem brýtur 16. grein EES-samningsins.

Aftenposten segir óljóst hvort niðurstaða dómstólsins þýði að selja verði bjór af þessum styrkleika í Vinmonopolet til að koma í veg fyrir mismunun eða hvort leyfa verði vín af styrkleikanum 2,5% til 4,75% í verzlunum. Blaðið segir að hugsa megi sér að norsk stjórnvöld muni réttlæta mismununina milli bjórs og víns með heilbrigðisrökum og að EES-kerfið fallist á þá röksemdafærslu á síðari stigum.

Gundersen gefst ekki upp

Í blaðinu kemur jafnframt fram að líkast til þýði niðurstaðan að Gundersen fái ekki að opna vínbúð, jafnvel ekki með vín af léttustu tegund. Í samtali við Aftenposten segist Gundersen undrandi á niðurstöðu dómstólsins. Hann muni þó ekki draga málsókn sína til baka, heldur halda málinu til streitu fyrir héraðsdómi. Gundersen segir að athyglisvert verði að sjá hvernig héraðsdómur Ósló túlki álit EFTA- dómstólsins.

Þingmaðurinn segist munu berjast áfram fyrir því að selja megi léttvín með 11-12% áfengisstyrk í almennum verzlunum og boðar tillöguflutning þar um á Stórþinginu.