Óvæntar yfirlýsing-
ar til að hnykkja á
stefnumálum Rússa
Moskvu, Stokkhólmi. Reuters.
BORÍS Jeltsín Rússlandsforseti hefur enn einu sinni komið gestgjöfum
sínum í opna skjöldu og aðstoðarmönnum sínum í klípu. Óvæntar yfirlýsingar hans í opinberri heimsókn til Svíþjóðar hafa orðið til þess að rússneskir embættismenn reyna hver sem betur getur að útskýra fyrir ráðvilltum blaðamönnum hvað forsetinn hafi raunverulega átt við. Þá hefur það ekki bætt úr skák að Jeltsín þykir veiklulegur og aðstoðarmenn hafa viðurkennt að forsetinn sé "þreyttur".
Rússneskir stjórnmálaskýrendur gera lítið úr þýðingum hinna óvæntu uppákoma í Stokkhólmi, segja forsetann eiga vanda til að brjóta út af áður ákveðinni dagskrá og leggja fram nýjar tillögur sem komi algerlega aftan að aðstoðarmönnum hans og ráðherrum.
"Þetta er hans stíll, þetta er eðli hans," segir Andrej Pjontkovskí, í rússnesku Hernaðarrannsóknarmiðstöðinni. "Hann hegðar sér svona til að sýna fram á að hann einn taki tímamótaákvarðanir, sem undirmenn hans ráði ekki við."
Annar sérfræðingur, Dmitrí Trenín, segir að Jeltsín vilji koma umheiminum rækilega á óvart til að beina athyglinni að stefnumálum Rússa. "Ég held að hann geri þetta vegna þess hversu veik [staða] Rússa er." Segist Trenín telja að geta Rússa til að breyta skotmörkum langdrægra vopna, kjarnaoddar og önnur hernaðarmálefni séu í raun eina skiptimynt Rússa.
Ekki í fyrsta sinn
Þá hafa stjórnmálaskýrendurnir bent á að Jeltsín hafi hvað eftir annað komið á óvart með lítt ígrunduðum yfirlýsingum.
Nefna megi fund Atlantshafsbandalagsins, NATO, í París í maí þegar Jeltsín lýsti því yfir að Rússar myndu fjarlægja karnaodda úr langdrægum flaugum. Sergei Jastrzhembskí, talsmaður forsetans, varð að útskýra fyrir ráðvilltum blaðamönnum að forsetinn hefði átt við að flaugunum yrði ekki lengur beint að NATO-ríkjum.
Í síðasta mánuði lýsti Jeltsín því yfir að hann væri sammála Úkraínumönnum um að fella ætti niður virðisaukaskatt í viðskiptum ríkjanna. Síðar sögðu aðstoðarmenn hans forsetann hafa átt við að málið yrði skoðað. Og á fundi með Martti Ahtisaari Finnlandsforseta, sagðist Jeltsín vilja að þjóðirnar tækju upp sameiginlegt landamæraeftirlit. Útskýring aðstoðarmannanna var sú að forsetinn hefði átt við að landamærastöðvarnar ætti að reka í sameiningu.
Svipbrigðalaus og stirður
Jeltsín virðist ekki hafa náð fullum bata eftir hjartauppskurð sem hann gekkst undir fyrir ári. Sýndist blaðamönnum hann vera veiklulegri og kraftminni en hann hefur virst lengi. Jastrzhembskí viðurkenndi í lok fyrsta dags heimsóknarinnar að forsetinn væri þreyttur en talsmaður hans er vanur því að svara spurningum um heilsufar forsetans með því að segja hann "frískan og hressan".
Forsetinn þótti svipbrigðalaus, ólíkt því sem áður var, hreyfingar hans stirðlegar, auk þess sem þær báru merki mikillar áreynslu. Hefur dagskrá forsetans verið stytt verulega, að ósk skrifstofu hans, m.a. var hætt við ferð til Gautaborgar.
Á blaðamannafundinum á þriðjudag þótti Jeltsín óskýr í máli og innihaldið einnig óljóst. Áttu aðstoðarmenn hans í mestu erfiðleikum með að útskýra hvað forsetinn átti við án þess að segja beinlínis að hann hefði farið með rangt mál.
Hann gerði til dæmis ekki greinarmun á kjarnorku og orku fenginni með kolabrennslu og fór rangt með hvaða ríki byggju yfir kjarnorkuvopnum, en það var reyndar leiðrétt hjá túlki hans. Þá svaraði Jeltsín eingöngu þeim spurningum sem hann hafði áhuga á en blaðamenn sem fylgt hafa honum eftir segja slíkt ekki óvanalegt.
Skipaði Svíakonungi fyrir
Jeltsín er þekktur að flestu öðru en varfærnislegum yfirlýsingum en það kom gestgjöfum hans engu síður á óvart er hann hóf fyrirvaralaust að ræða um stríðin sem Svíar og Rússar hefðu háð. Skipaði hann Karli Gústafi Svíakonungi að láta setja saman sýningu um stríðskonunginn Karl XII en hann háði flest sín stríð við Rússa og lyktaði átökum hans við Rússland með blóðbaðinu við Poltava.
Þá skipaði Jeltsín Göran Persson, forsætisráðherra Svía, að ganga hið snarasta frá samningi um lagningu gasleiðslu frá Rússlandi til meginlandsins í gegnum Svíþjóð. "Árið 1999 er allt of seint. Því legg ég fram ný tímamörk: Klukkan átta í fyrramálið eiga drög að rammasamkomulagi að liggja á borði mínu!" sagði Rússlandsforseti.
Persson virtist ekki vita hvaðan á sig stóð veðrið, brosti og horfði upp í loft, á meðan Jeltsín þrumaði kröfur Rússa, og svaraði þeim engu. Sænskir embættismenn segja Svía ekki reiðubúna að ganga frá slíku samkomulagi við Rússa en segja hins vegar mögulegt að af því verði.
Reuters Á MEÐAL þeirra sem Borís Jeltsín Rússlandsforseti og Naína, eiginkona hans, hafa hitt í Svíþjóð, er hinn ástsæli barnabókahöfundur, Astrid Lindgren en hún varð níræð í liðnum mánuði.