"ENGAR athugasemdir hafa verið gerðar varðandi viðskipti við Tævan enda feli þau ekki í sér neina viðurkenningu á sjálfstæði eyjarinnar," sagði Jón Egill Egilsson, skrifstofustjóri Alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, þegar hann var inntur eftir því hvernig Kínverjar litu á það ef ákveðið yrði að taka tilboði Tævana,
Tævanar buðu í smíði hafrannsóknaskips

"Viðskipti af þessu tagi

koma pólitík ekkert við"



"ENGAR athugasemdir hafa verið gerðar varðandi viðskipti við Tævan enda feli þau ekki í sér neina viðurkenningu á sjálfstæði eyjarinnar," sagði Jón Egill Egilsson, skrifstofustjóri Alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, þegar hann var inntur eftir því hvernig Kínverjar litu á það ef ákveðið yrði að taka tilboði Tævana, sem voru með þriðja lægsta tilboðið í smíði nýs hafrannsóknaskips. "Ég fæ ekki séð að viðskipti af þessu tagi komi pólitíkinni og viðurkenningu okkar á Kína neitt við."

Eins og fram kom í fréttatilkynningu frá íslenska utanríkisráðuneytinu fyrir skömmu, var niðurstaða viðræðna við kínverska utanríkisráðuneytið sú að ríkin ætluðu áfram að byggja samskipti sín á sameiginlegri yfirlýsingu um stjórnmálatengsl frá árinu 1971, að sögn Jóns Egils. Þar segir að Ísland viðurkenni eitt og óskipt Kína og að ríkisstjórnin í Peking sé eina löglega ríkisstjórn landsins. Af því leiði að Ísland muni ekki eiga opinber samskipti við Tævan, en Kínverjar ítrekuðu þá stefnu sína að hafa ekkert á móti samskiptum íslenskra einkaaðila við Tævan á sviði ferðamála og viðskipta.

Jón Egill sagði að yfirlýsingin frá 1971 fjallaði fyrst og fremst um pólitísk samskipti og viðurkenningu á Kína sem einni heild, en hefði ekkert með viðskipti að gera. Kínverjar hafi margendurtekið að þeim sé ekkert illa við að Íslendingar eigi viðskipti við Tævan, rétt eins og fjöldi annarra ríkja. Ekki væri ætlunin að það giltu um okkur aðrar reglur en þær þjóðir sem Kínverjar væru í opinberum tengslum við. "Ég get ekki séð að smíði nýs skips í Tævan hefði áhrif á pólitísk samskipti landanna. Athyglivert er hins vegar að tvö lægstu tilboðin koma frá meginlandi Kína."