Hlutabréf skráð á tvo lista
Fyrirtæki á aðallista þurfa að leggja fram
ársreikninga fyrir þrjú heil ár, hlutafé verður að dreifast á a.m.k. 300 almenna hluthafa og má áætlað markaðsvirði ekki vera lægra en 600 milljónir.
NÝJAR reglur hafa tekið gildi um skráningu verðbréfa á Verðbréfaþingi Íslands. Veigamesta breytingin er sú að hér eftir verða hlutabréf skráð á tvo lista, Aðallista og Vaxtarlista. Öll félög sem skráð hafa verið fram til þessa eru á Aðallistanum. Fyrsta félagið sem fær bréf sín skráð á Vaxtarlistann er Bifreiðaskoðun hf. og tekur skráningin gildi þriðjudaginn 9. desember. Þar með verða skráð félög VÞÍ orðin 49 talsins og hefur fjölgað um 17 á þessu ári sem er langmesta fjölgun í sögu þingsins, að því er fram kemur í frétt frá Verðbréfaþingi.
Jafnframt kemur fram að tilgangurinn með þessari breytingu var í fyrsta lagi að laga reglurnar að kröfum tilskipana sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig með EES- samningnum til að hrinda í framkvæmd hér á landi. Þá er ætlunin að gera reglurnar skýrari og aðgengilegri og bæta úr þeim atriðum sem reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að hæfðu ekki að öllu leyti. Loks er í þriðja lagi ætlunin að gefa félögum á Opna tilboðsmarkaðnum færi á að skrá hlutabréfin á skipulegum markaði sem hlotið hefur samþykki bankaeftirlits og stjórnvalda.
Hertar kröfur á aðallista
Með breytingunum eru hertar kröfur vegna skráningar hlutabréfa á Aðallista en kröfur vegna skráningar á Vaxtarlista eru vægari en áður gilti hjá VÞÍ. Með skráningu á Vaxtarlista verða hlutafélög gjaldgeng sem fjárfestingarkostur hjá fjölmörgum stofnanafjárfestum.
Fyrirtæki á aðallista þurfa að leggja fram ársreikninga fyrir þrjú heil ár, hlutafé verður að dreifast á a.m.k. 300 almenna hluthafa og má áætlað markaðsvirði ekki vera lægra en 600 milljónir. Hins vegar nægir að leggja fram ársreikninga fyrir eitt ár hjá fyrirtækjum á Vaxtarlista, a.m.k. 15% hlutafjár verður að vera í eigu almennra hluthafa og áætlað markaðsvirði má ekki vera lægra en 60 milljónir. Hingað til hafa verið gerðar kröfur um a.m.k. 200 hluthafa og 80-85 milljóna markaðsvirði hlutbréfa.
Til almennra hluthafa teljast ekki stjórnarmenn, stjórnendur, hluthafar sem eiga 10% eða meira, nánir venslamenn fyrrgreindra aðila, móðurfélög, dótturfélög.
Stjórnin hefur heimild til að veita undanþágur frá reglunum, aðallega á Vaxtarlistanum. Þau félög á Aðallistanum sem ekki uppfylla að öllu leyti kröfur hans á þessu stigi fá ársfrest, til 1. desember á næsta ári, til að uppfylla þær, en verða ella að flytjast á Vaxtarlistann.
Á grundvelli könnunar sem gerð var á liðnu sumri telur VÞÍ líklegt að flest félögin á OTM hafi áhuga á að sækja um skráningu á Vaxtarlistanum og nokkur þeirra jafnvel á Aðallistanum. Stjórn þingsins hefur hins vegar ekki tekið afstöðu til þess hvort OTM verði áfram í viðskiptakerfi þingsins þegar til lengdar lætur. Stefnt er að því að fella niður útsendingar gagna og yfirlita frá OTM eftir um hálft ár.
Í nýju stjórnarfrumvarpi um starfsemi kauphalla eru í ýmsum efnum gerðar strangari kröfur til félaga sem skráð eru í kauphöll, t.d. varðandi ýmiss konar upplýsingagjöf og um yfirtökutilboð. Aðallisti uppfyllir þau skilyrði sem sett eru um starfsemi kauphalla, samkvæmt frumvarpinu, en Vaxtarlisti uppfyllir skilyrði sem sett eru um starfsemi skipulegs tilboðsmarkaðar.