SUÐUR-Kórea fær að minnsta kosti 55 milljarða dala, andvirði 3.900 milljarða króna, í aðstoð til að rétta efnahag landsins við, að því er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) skýrði frá í gær. Þar af leggur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn til 21 milljarð dala (1.500 milljarða króna), Alþjóðabankinn 10 milljarða dala (710 milljarða króna) og Þróunarbanki Asíu fjóra milljarða (290 milljarða króna).

Suður-Kórea fær 55

milljarða dala aðstoð

Seoul. Reuters.

SUÐUR-Kórea fær að minnsta kosti 55 milljarða dala, andvirði 3.900 milljarða króna, í aðstoð til að rétta efnahag landsins við, að því er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) skýrði frá í gær. Þar af leggur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn til 21 milljarð dala (1.500 milljarða króna), Alþjóðabankinn 10 milljarða dala (710 milljarða króna) og Þróunarbanki Asíu fjóra milljarða (290 milljarða króna). Þá ætla nokkur ríki að leggja sitt af mörkum og gert er ráð fyrir að heildarframlög þeirra nemi allt að 20 milljörðum dala (1.400 milljörðum króna).

Michel Camdessus, framkvæmdastjóri Alþjóðajaldeyrissjóðsins, sagði að aðstoð IMF fælist í því að Suður-Kórea fengi lán að andvirði 21 milljarðs dala á næstu þremur árum.

Samkomulagið var kynnt eftir að stjórn Suður-Kóreu undirritaði viljayfirlýsingu um umbætur á fjármálakerfi landsins. "Áætlunin byggist á sterkari fjármála- og peningastefnu, víðtækum fjármálaumbótum og auknu frjálsræði í viðskiptum og fjármagnsflæði, auk kerfisbreytinga til að bæta stjórnun kóreskra fyrirtækja," sagði Camdessus og kvaðst ætla að leggja samkomulagið fyrir stjórn IMF á næstu dögum.

Aðalsamningamaður Suður- Kóreu, Chung Duk-ku, sagði að stjórn landsins hefði lofað að veita ekki frekari upplýsingar um samkomulagið fyrr en stjórn IMF legði blessun sína yfir það.

Stjórnun fyrirtækja bætt

Stjórn Japans sagðist ætla að leggja til 10 milljarða dala í aðstoð við Suður-Kóreu og Bandaríkjastjórn boðaði aðstoð að andvirði 5 milljarða dala.

"Bandaríkjastjórn fagnar áætluninni, sem felur m.a. í sér verulegar breytingar á fjármálakerfinu til að opna fjármálamarkaði Suður- Kóreu fyrir erlendri þátttöku og bæta stjórnun fyrirtækja, auk mikilvægra breytinga á efnahagsstefnunni," sagði Robert Rubin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

Rubin bætti við að það "skipti miklu máli fyrir efnahags- og öryggishagsmuni Bandaríkjanna" að veita Suður-Kóreu aðstoð til að binda sem fyrst enda á umrótið á fjármálamörkuðum heimsins. "Í þessu nýja hnattræna efnahagskerfi eru mjög mikil tengsl milli hagsældar og stöðugleika í Bandaríkjunum og jöfnuðar í alþjóðlega fjármálakerfinu og styrks viðskiptaþjóða okkar."

Minni hagvöxtur og aukið atvinnuleysi

Suður-Kórea þarfnast aðstoðar vegna gífurlegra skammtímalána sem eru að gjaldfalla. Suður-kóreskir fjölmiðlar skýrðu frá því í vikunni að seðlabankinn hefði þurft að greiða 10 milljarða dala fyrir kóreska banka á síðustu dögum vegna gjaldfallinna skammtímalána.

Erlendar skuldir Suður-Kóreu nema alls 120 milljörðum dala og þar af eru 66 milljarðar skammtímalán. 20 milljarðar dala gjaldfalla fyrir áramót.

Verslunarbankar landsins eru taldir eiga mesta sök á fjármálakreppunni vegna handahófskenndra lánveitinga þeirra. Alþjóðagjaldeyrirssjóðurinn vill að 12 verslunarbönkum og að minnsta kosti tveimur viðskiptabönkum verði lokað tafarlaust, enda vill hann ekki að fjárhagsaðstoðin verði notuð til að styrkja banka og fyrirtæki sem hafa brugðist, að sögn fjármálasérfræðinga.

Embættismenn í fjármálaráðuneytinu í Seoul sögðu að stjórnin hefði einnig samþykkt að minnka hagvöxtinn um helming, þannig að hann yrði 3% en ekki 6% á næsta ári. Það gæti orðið til þess að atvinnuleysið í Suður-Kóreu yrði meira en nokkru sinni fyrr.

Reuters MICHAEL Camdessus, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (t.v.), og Lim Cang-yuel, fjármálaráðherra Suður-Kóreu, undirrita samkomulag um fjárhagsaðstoð við landið. Við hlið þeirra er seðlabankastjóri Suður- Kóreu.