Til 14. desember. Opið fimmtudaga til sunnudaga frá 14­18. HVAR liggja mörkin milli listar og auglýsingar? Við sem vöndumst kaffi- og smjörlíkisauglýsingum í sjónvarpinu með leiknum stefjum úr konsertum Mozarts komumst snemma að því að ekkert er svo heilagt að ekki megi örva með því viðskipti.
Hollenskar rósir MYNDLIST Ingólfsstræti 8 LJÓSMYNDIR TOON MICHIELS Til 14. desember. Opið fimmtudaga til sunnudaga frá 14­18. HVAR liggja mörkin milli listar og auglýsingar? Við sem vöndumst kaffi- og smjörlíkisauglýsingum í sjónvarpinu með leiknum stefjum úr konsertum Mozarts komumst snemma að því að ekkert er svo heilagt að ekki megi örva með því viðskipti. Eitt sinn þegar ég var að koma upp úr neðanjarðarlestarkerfi Lundúnaborgar með endalausum rúllustiga, sem lá úr iðrum jarðar upp á yfirborðið, skemmti ég mér við að skoða stórar jógúrtauglýsingar frá afurðafyrirtækinu Danone með Matselju Vermeers, þar sem hún stendur við borðið hlaðið brauði og hellir mjólk úr stórri könnu. Ja, einhvern tíma hefði svona misnotkun á merku listaverki þótt jaðra við guðlast. Enn er því þó þannig varið hjá okkur að menn eru ákærðir fyrir að misþyrma viðurkenndum listaverkum. Ég man ekki betur en Vignir Jóhannesson hafi mátt sæta sektum fyrir að "betrumbæta" Lómana hans Jóns Stefánssonar við Þjórsá . Hins vegar fékk Marcel heitinn Duchamp að misþyrma Mónu Lísu Leonardos í friði árið 1919, ef til vill vegna þess að meistarinn átti sér enga eftirlifandi ættingja til að mótmæla athæfinu. En svo kom Andy Warhol til skjalanna í byrjun 7. áratugarins, listamaðurinn sem hafði fullkomin endaskipti á hlutverkum listar og auglýsingar. Með því að næra list sína á þekktum vörumerkjum eins og Campbell's og Brillo , eða neyslu- og kvikmyndaklisjum á borð við litgreindu Kodak-bómin og Marilyn Monroe hratt hann myndlistinni úr sínum hátimbraða fílabeinsturni. Hún var ekki lengur torrætt augnakonfekt handa hinum fáu útvöldu heldur augljós og auðlæs breiðmenningarafurð með einföldu viðfangsefni, sem gjarnan var margendurtekið með grafískri fjölföldunartækni nútímalegs auglýsingaiðnaðar. Hafi almenningur átt að vera ánægður með svo alþýðlega þróun mála var annað uppi á teningnum. Margir áttu erfitt með að sætta sig við svo róttæka nálgun listarinnar við hinn hversdagslega heim, sem var talinn of ódýr og ósmekklegur til að geta talist verðugur sem myndefni. Hafi almenningur stundum átt erfitt með að skilja háfleygt yfirbragð óhlutbundinnar myndlistar sá hann engan tilgang í málverkum af endalausum súpudósum eða óendanlegum röðum af Coca-Cola flöskum. Síðan eru liðin vel á fjórða tug ára og nú kippa fáir sér upp við hversdagslegt myndefni Warhols. Toon Michiels er eins konar síð- warholskur listamaður sem semur sig að klisjum auglýsingaiðnaðarins með því að hafa uppi stór orð um rómantík um leið og hann bregður upp stöðluðum ljósmyndum af stórum rósum með sætlegum boðskap svo sem Thoughts of You (Hugsað til þín); Sweet Magic (Ljúfir töfrar) og Best Wishes (Hamingjuóskir). Ofan og aftan við textann kemur Michiels fyrir fangamarki sínu, TM, líkt og skrásettu vörumerki, eða trade mark eins og það heitir á ensku. Þannig er sýning Michiels uppfull af tvíbentum tilvísunum í heim, sem bóka má að allur þorri mannkyns telji fagran og heillandi. Eða hví skyldi jafnvæmið myndmál vera jafnútbreitt ef það bæri ekki tilætlaðan árangur? Spurningarnar sem listamaðurinn lætur okkur eftir að svara gætu því hljómað svona: "Er til sameiginlegur samnefnari sem kalla mætti almenna smekkvísi? Ef svo er, hefur auglýsingaiðnaðurinn þá ekki fyrir löngu virkjað hann með sinni alkunnu röggsemi? Er nokkur framtíð fyrir myndlist sem vill fara aðrar og ótroðnari slóðir? Halldór Björn Runólfsson YFIRLITSMYND af ljósmyndasýningu Toons Michiels.