GENGIÐ hefur verið frá samkomulagi um að Tæknival hf. kaupi 69% hlutafjár í hugbúnaðarfyrirtækinu Kerfi hf. Með þessum kaupum hyggst Tæknival auka þjónustu sína á sviði hugbúnaðargerðar og ná til stærri hóps viðskiptavina, einkum innan sjávarútvegs. Seljandi bréfanna er Þröstur Guðmundsson, en kaupverðið verður ekki gefið upp.
ÐTæknival

kaupir 69%

í Kerfi hf.



GENGIÐ hefur verið frá samkomulagi um að Tæknival hf. kaupi 69% hlutafjár í hugbúnaðarfyrirtækinu Kerfi hf. Með þessum kaupum hyggst Tæknival auka þjónustu sína á sviði hugbúnaðargerðar og ná til stærri hóps viðskiptavina, einkum innan sjávarútvegs. Seljandi bréfanna er Þröstur Guðmundsson, en kaupverðið verður ekki gefið upp.

Kerfi er elsta hugbúnaðarfyrirtæki á Íslandi en það var stofnað árið 1954 af Bjarna P. Jónassyni, fyrsta forstjóra SKÝRR. Meginstarfsemi Kerfis hf. hefur verið þróun, ráðgjöf og þjónusta fyrir AS/400 tölvur, þar með talið lausnir fyrir sjávarútveg. Á síðustu árum hefur mikil áhersla einnig verið lögð á að þróa lausnir fyrir margs konar tölvuumhverfi.

Kerfi annast nýsmíði hugbúnaðar fyrir innlenda og erlenda aðila auk ráðgjafar og þjónustu. Ásamt ALVÍS upplýsingakerfinu hefur fyrirtækið m.a. á boðstólum sjávarútvegskerfið SeaScape, gæðastjórnunarkerfið ProQM og launakerfið Kaupmátt. Meðal viðskiptavina Kerfis hf. eru mörg af stærstu fyrirtækjum landsins, t.d. Hekla, Trygging, Sjóvá-Almennar, Merkúr, Samherji, ÚA, Haraldur Böðvarsson og Hraðfrystihúsið í Hnífsdal. Kerfi rekur útibú á Akureyri og eru starfsmenn fyrirtækisins tuttugu og tveir. Veltan er áætluð um 110 milljónir á þessu ári.

Bjóða heildarlausnir

Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Tæknivals hf., segir að kaupin séu liður í því að styrkja fyrirtækið í hugbúnaðargerð og heildarlausnum. Sérstaklega muni kaupin gera kleift að styrkja hugbúnaðargerð fyrir matvælaiðnað. "Við munum halda áfram á þeirri braut að bjóða heildarlausnir fyrir fyrirtæki," segir hann.

Fyrir á Tæknival 15% hlut í hugbúnaðarfyrirtækjunum Hug hf., 15% í Teymi, 50% í Navís, 50% í Intraneti og 50% í Kugg. Þar að auki starfrækir fyrirtækið sjálft 60 manna hugbúnaðardeild.

Styrkir samkeppnisstöðuna

Að sögn Björns Z. Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra Kerfis, hafði fyrirtækið verið að leita eftir nýjum fjárfestum um nokkurt skeið og niðurstaðan hafi orðið þessi.

"Þróunarfélagið keypti hlut í fyrirtækinu í vor og áður höfðu starfsmenn einnig keypt hlutafé. Við vildum gjarnan fá þessu til viðbótar fjárfesti sem hefði bæði tækni- og markaðsþekkingu og þess vegna er þetta ágæt niðurstaða," segir Björn.

Hann segir að fyrirhugað sé að flytja hluta af starfsemi hugbúnaðardeildar Tæknivals yfir til Kerfis. Bæði fyrirtækin hafi starfað að hugbúnaðargerð fyrir sjávarútveg og ljóst sé að þessi niðurstaða muni styrkja þau í samkeppninni.

"Við lítum því mjög jákvæðum augum á þessi kaup og sjáum í þeim ákveðin sóknartækifæri bæði hér heima og erlendis," segir Björn.