FUNDUR varnarmálaráðherra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins gekk á þriðjudag endanlega frá heildarendurskoðun á herstjórnarkerfi bandalagsins. Um leið var innsiglað óformlegt samkomulag Íslands og annarra aðildarríkja NATO frá í fyrra, um breytta stöðu varnarstöðvarinnar í Keflavík í herstjórnarkerfinu. Fastafulltrúi Íslands hjá NATO sat fundinn fyrir hönd íslenzkra stjórnvalda.
Varnarmálaráðherrar NATO ljúka endurskoðun herstjórnarkerfisins Staða Keflavíkurstöðvarinnar í kerfinu tryggð

FUNDUR varnarmálaráðherra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins gekk á þriðjudag endanlega frá heildarendurskoðun á herstjórnarkerfi bandalagsins. Um leið var innsiglað óformlegt samkomulag Íslands og annarra aðildarríkja NATO frá í fyrra, um breytta stöðu varnarstöðvarinnar í Keflavík í herstjórnarkerfinu. Fastafulltrúi Íslands hjá NATO sat fundinn fyrir hönd íslenzkra stjórnvalda.

Endurskoðun herstjórnarkerfisins felur í sér að herstjórnarumdæmum innan kerfisins er fækkað mjög. Ísland hefur til þessa verið sérstakt herstjórnarumdæmi, svokölluð eyjarherstjórn. Á síðasta ári voru uppi hugmyndir innan NATO um að strika varnarstöðina í Keflavík út úr herstjórnarkerfinu, eins og aðrar eyjarherstjórnir á Atlantshafi, t.d. Grænland, Færeyjar og Azoreyjar.

Ísland áfram með formlega stöðu í herstjórnarkerfinu

Íslenzk stjórnvöld andmæltu þessu, meðal annars með þeim rökstuðningi að Ísland væri fullgilt aðildarríki NATO og gilti annað um það en t.d. Færeyjar eða Azoreyjar; Ísland yrði að hafa formlega stöðu innan herstjórnarkerfisins. Íslenzk stjórnvöld fengu í gegn, meðal annars með stuðningi Bandaríkjanna, sérstaka lausn á stöðu Keflavíkurstöðvarinnar, sem ekki á sér hliðstæðu í herstjórnarkerfinu. Hún gerir ráð fyrir að Ísland verði ekki áfram sérstakt herstjórnarumdæmi, heldur verði varnarstöðin undirdeild Austur- svæðisherstjórnar NATO í Northwood í Englandi, sem áður kallaðist Austur-Atlantshafsherstjórn. Þessi lausn felur í sér að Ísland skipar áfram formlegan sess í herstjórnarkerfinu. Hún hefur enn ekki verið útfærð í smáatriðum

"Við höfum með þessu tryggt okkar stöðu. Ísland verður áfram hluti af svæðisherstjórninni, ólíkt öðrum eyjum á Atlantshafi, og við erum mjög ánægðir með þá niðurstöðu," segir Jón Egill Egilsson, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, um niðurstöðu fundarins.

Ísland beitti sér í þágu Eystrasaltsríkjanna

Í lokayfirlýsingu fundar varnarmálaráðherranna er ítrekað að NATO sé áfram opið nýjum ríkjum og vísað til yfirlýsingar leiðtogafundar bandalagsins í Madríd í júlí síðastliðnum, en þar voru annars vegar ríki Suðaustur-Evrópu nefnd, sérstaklega Slóvenía og Rúmenía, og hins vegar Eystrasaltsríkin.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var á fundi varnarmálaráðherranna deilt um orðalag þessa liðar yfirlýsingarinnar og vildu sum ríki leggja áherzlu á Suðaustur-Evrópuríkin, en ekki á Eystrasaltsríkin. Að kröfu Íslands og Danmerkur voru tilvísanir til einstakra svæða teknar út úr yfirlýsingunni, þannig að ekki hallaði á Eystrasaltsríkin. Samkomulag um þetta atriði náðist ekki fyrr en undir lok fundarins.