Scholes gimsteinn-
inn í kórónunni
Margir halda ekki vatni
yfir frammistöðu Pauls Scholes með Manchester United og enska landsliðinu í knattspyrnu og lái þeim hver sem vill. Steinþór Guðbjartsson leit yfir stuttan en árangursríkan feril rauðhærða prinsins, sem hefur farið á kostum, eflst með hverjum leik og var valinn besti maðurinn í vináttulandsleik Englands og Kamerún um miðjan nóvember daginn sem hann varð 23 ára.
Áheimasíðu Manchester United kemur fram að Scholes sé hæfileikaríkastur nýgræðinganna hjá félaginu. Þegar Eric Cantona var dæmdur í margra mánaða bann tók Scholes við stöðunni, en hann gerði 16 mörk í fyrsta 21-leiknum fyrir United, þar á meðal sigurmarkið á móti nágrönnunum í Manchester City sem stuðningsmönnum United leiddist ekki. "Paul Scholes er mjög bráðþroska og skynsamur sem er hans helsti kostur auk þess sem hann skorar reglulega fyrir okkur," er haft eftir Alex Ferguson, knattspyrnustjóra United, á síðunni.
Öndunarerfiðleikar
Fyrir tveimur árum óttuðust Ferguson og samstarfsmenn hans að Scholes gæti aldrei náð mjög langt í knattspyrnunni því þrátt fyrir mikla hæfileika þjáðist hann af öndunarerfiðleikum eins og astmasjúklingar eiga við að stríða og var undir stöðugu eftirliti sérfræðinga. Hann mæddist fljótt og lék sjaldan heilan leik en Ferguson notaði hann sem varamann þegar mest lá við. Þá var Cantona í liðinu og Ferguson lagði áherslu á að Scholes tæki hann sér til fyrirmyndar, lærði af honum, sem og hann gerði heldur betur. Í fyrra tók Ferguson Poporsky og Cruyff fram yfir Scholes, en sá síðastnefndi kvartaði ekki, hélt sínu striki og með dugnaði og áræði vann hann sér sæti í liðinu á ný.
Lítið fer fyrir Scholes utan vallar en hann lætur verkin tala á vellinum og hugsar fyrst og fremst um að vinna fyrir liðið. Hann fékk fyrst tækifæri með United í deildabikarleik á móti Port Vale. Talsmenn annarra liða kvörtuðu yfir því að Ferguson gerði lítið úr keppninni með því að stilla upp óhörðnuðum og óþekktum piltum úr unglingaliðinu, en United sigraði og Lou Macari, fyrrverandi leikmaður United, einblíndi þegar á Scholes, sagði að hann væri eins líflegur og Denis Law, sendingum hans og útsjónarsemi mætti líkja við eiginleika sem Paddy Crerand hafði og hann smitaði út frá sér eins og Lou Macari. "Hann er ekki mjög hávaxinn en stærð er ekki allt," sagði Macari. Það sem skiptir máli er að hann les leikinn og er með augu rándýrsins. Hann kemur alltaf til með að gera mörg mörk." Macari sagði að áhorfendur hefðu séð undur og stórvirki, mann sem ætti örugglega eftir að verða leiðandi leikmaður hjá Manchester United og enska landsliðinu. "Paul hefur þessa ásjónu, útgeislun, sem er ótrúleg hjá svona ungum manni. Hann hefur sýnt mér að hann getur hrist mótherja af sér, auga hans fyrir spili og sendingar hans slá andstæðingana út af laginu og hann hættir aldrei. Hann á svæðið og slakar aldrei á."
Þrjú mörk í fimm landsleikjum
Glenn Hoddle, landsliðsþjálfari, valdi hann í landsliðshópinn fyrir fjögurra þjóða mót í Frakklandi í júní sem leið. Hann lét þegar finna fyrir sér og Ítalir vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið þegar hann skoraði á móti þeim af liðlega 20 metra færi. Scholes braut ísinn þegar hann gerði mark með skalla í leik Englands og Moldóvu í riðlakeppni HM í haust, hamraði boltann í netið, og þriðja landsliðsmark hans í fimm landsleikjum kom í fyrrnefndum vináttulandsleik við Kamerún, lyfti snyrtilega yfir markvörðinn eftir undirbúning Gascoignes. Hann var yfirburðamaður í leiknum og áhorfendur á Wembley risu á fætur og klöppuðu honum lof í lófa þegar honum var skipt út af eftir 79 mínútur. Svalt var í veðri og engin áhætta var tekin vegna fyrrnefndra öndunarerfiðleika.
Eins og hugur Hoddles
Scholes hefur alla tíð lagt sig allan í æfingar og leiki, verið draumur allra þjálfara, og velgengnin hefur ekki stigið honum til höfuðs. "Ég get hælt honum sem mest ég má því ég veit að hann er maður til að taka hóli, er jarðbundin hvað sem á gengur," sagði Hoddle, en Scholes er einmitt leikmaður eins og landsliðsþjálfarinn vill hafa í landsliðinu. "Hann er mjög fjölhæfur, getur verið miðherji, spilað fyrir aftan fremstu menn eða vinstra megin á miðjunni."
Brian Kidd hefur verið hægri hönd Fergusons í uppbyggingu ungu leikmannanna og eins og Ferguson hefur hann alla tíð haft mikið álit á Scholes vegna hæfileikanna, framkomunnar og hugarfarsins. "Ég er líka mjög ánægður með hann," sagði Hoddle. "Hann hefur tekið verkið föstum tökum nokkuð sem margir virðast ekki geta lætur ekkert leiða sig af réttu spori, er með frábært keppnisskap og á bjarta framtíð."
Aðeins ein hindrun
Þrátt fyrir stór orð um ágæti Scholes leggur Hoddle áherslu á að hann geti enn lært mikið af Teddy Sheringham, sem sé mjög mikilvægur í landsliðinu, en margir álíta að Scholes hafi ekki aðeins sannað sig sem varamaður fyrir Sheringham í landsliðinu heldur snúið dæminu við. Hoddle bendir á að samkeppnin sé af hinu góða og hún geri Sheringham gott. "Ekki má gleyma því að leikmenn eins og Teddy hafa líka staðið sig vel á móti bestu liðum. Ég er sannfærður um að hann hugsar um árangur Scholes, en hann veit um hvað þetta snýst því hann hefur gengið í gegnum þetta allt saman."
Í enska blaðinu Telegraph kom fram að Scholes væri ámóta mikilvægur í landsliði Hoddles og Alan Ball var í heimsmeistaraliði Alfs Ramseys. Hoddle sagði að ekkert stöðvaði hann nema hugsanlega astminn. "Með mörkum sínum hefur Scholes sannað að hann er ógnandi í teignum og hann gæti verið gimsteinninn í kórónunni."
Reuters Marki fagnað á Old Trafford PAUL Scholes fagnar marki sínu í Evrópuleik gegn Juventus, þegar Man. Utd. lagði ítölsku meistarana á Old Trafford 3:2.