ÁRIÐ 1997 voru 1.139 leiguíbúðir í eigu Reykjavíkurborgar. Þar af eru 745 til almennrar úthlutunar og 394 til úthlutunar fyrir aldraða. Á biðlista eftir íbúð til almennrar úthlutunar voru 379 í árslok 1996 og 398 á biðlista fyrir aldraða eða samtals 777.
Svar við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins
1.139 leiguíbúðir í
eigu borgarinnar777 voru á biðlista í árslok 1996
ÁRIÐ 1997 voru 1.139 leiguíbúðir í eigu Reykjavíkurborgar. Þar af eru 745 til almennrar úthlutunar og 394 til úthlutunar fyrir aldraða. Á biðlista eftir íbúð til almennrar úthlutunar voru 379 í árslok 1996 og 398 á biðlista fyrir aldraða eða samtals 777.
Þetta kemur fram í svari félagsmálastjóra Reykjavíkurborgar, sem lagt var fram í borgarráði við fyrirspurnum frá borgarráðsfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Ennfremur var spurt um hversu margir hafi verið á biðlistum eftir leiguhúsnæði hvert ár og hvernig biðlistar væru flokkaðir. Fram kemur að biðlistar eru flokkaðir eftir aldri umsækjenda, þ.e. hvort um er að ræða 67 ára eða eldri eða yngra fólk. Í öðru lagi er flokkað eftir fjölskyldugerð, þ.e. einhleypingar, barnafjölskyldur eða barnlaust fólk. Við röðun á biðlista er tekið tillit til tekna, heilsufars, barnafjölda og lengdar biðtíma. Einnig er tekið tillit til félagslegra örðugleika, einkum þegar um er að ræða alvarlegan vanda barnafjölskyldna. Úthlutun fer fram af forgangslista annars vegar í öldrunarþjónustudeild og hins vegar í fjölskyldudeild í umboði félagsmálaráðs.
Árleg endurnýjun
Spurt var hvort biðlistum eftir leiguhúsnæði hafi í einhverjum tilvikum verið lokað. Í svari félagsmálastjóra segir að þeim hafi ekki verið lokað en að lág tekjumörk og forgangur þeirra sem eigi við félagslega og/eða heilsufarslega erfiðleika að etja takmarki möguleika margra borgarbúa á að koma til greina. Tekið er fram að umsóknir þurfi að endurnýja árlega, annars falli þær úr gildi.
Kosningaloforð svikið
Í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram í borgarráði segir að í framlögðum upplýsingum sjáist að leiguíbúðum fjölgaði um 111 á síðasta kjörtímabili. "R-listinn gaf það kosningaloforð að gera átak í fjölgun leiguíbúða. Fjölgun leiguíbúða í eigu borgarinnar er hins vegar aðeins 69 á þessu kjörtímabili, auk þess sem framleiguíbúðum hefur fækkað. Það er ljóst að enn eitt kosningaloforð R-listans verður svikið," segir í bókuninni.
Í bókun borgarstjóra segir að það sem hafi áhrif á tölurnar sé bygging sölu-, kaupleigu- og leiguíbúða fyrir aldraða við Lindargötu í tengslum við þjónustumiðstöðina þar. Við það hafi íbúðum fjölgað um 60 til úthlutunar fyrir aldraða milli áranna 19921993. "Það vekur hins vegar athygli að þrátt fyrir þetta fækkaði aðeins um 15 á biðlista aldraðra milli þessara ára. Hvað varðar íbúðir til almennrar úthlutunar þá fjölgaði þeim um 44 á síðasta kjörtímabili en um 57 á þessu," segir í bókuninni.