FRÁFARANDI biskup yfir Íslandi hr. Ólafur Skúlason og fulltrúar þjóðkirkjupresta tóku sér það bessaleyfi að semja við stjórnvöld um að ríkið fái eignarrétt yfir kirkjujörðunum og í staðinn verði þjóðkirkjuprestur embættismenn ríkisins, fái sambærileg laun og ríkisstarfsmenn með fimm ára háskólamenntun.
Hvernig
geta þjóðkirkjuprestar? Guðfræðideild á að leggja niður, segir Ásdís Erlingsdóttir, en stofna presta-postuladeild innan Þjóðkirkjunnar. FRÁFARANDI biskup yfir Íslandi hr. Ólafur Skúlason og fulltrúar þjóðkirkjupresta tóku sér það bessaleyfi að semja við stjórnvöld um að ríkið fái eignarrétt yfir kirkjujörðunum og í staðinn verði þjóðkirkjuprestur embættismenn ríkisins, fái sambærileg laun og ríkisstarfsmenn með fimm ára háskólamenntun. Það er mín skoðun að hvorki biskup eða fulltrúar þjóðkirkjupresta hafi umráða- og ráðstöfunarrétt yfir kirkjujörðunum heldur þjóðkirkjusöfnuðirnir í landinu og fulltrúar þeirra. Hvernig geta þjóðkirkjuprestar verið embættismenn ríkisins, þegið laun sín af ríkisvaldinu fyrir að boða og kenna orð Guðs? Prestar geta ekki þjónað bæði guði og mammon. Kristur sjálfur aðgreindi jarðnesk stjórnvöld frá þeim himnesku er hann sagði: Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er. Eftir stúdentspróf er hægt að segja: Ég ætla að verða prestur, það er fimm ára háskólanám í heimspekideild Háskóla Íslands. Slíkt fyrirkomulag stendur í gegn kristniboði frumkristninnar.
Það sem skiptir máli er að þeir sem taka trú öðlist sína trúarreynslu og stöðuglyndi í trúnni, samhliða þekkingu á orði Guðs og Anda. En Drottinn velur sína verkamenn og heilagi Andinn er kennarinn. Það fer ekki eftir menntun að heimsins hætti eða lítillar menntunar. Páll postuli var farísei úr yfirstétt gyðinga, Pétur postuli var fátækur fiskimaður og Matteus var tollheimtumaður fjármálamaður. Guð lítur í hjartað hugskot okkar, en ekki á hið ytra.
Kristniboð frumkristninnar
Jesús Kristur er fyrsti boðandi fagnaðarboðskapsins ásamt lærisveinum sínum og þeir sem tóku trú voru skírðir til iðrunar og syndafyrirgefningar til að byrja sjálfviljugir nýtt líf. Ómálga börn, ómeðvituð og óábyrg gjörða sinna voru ekki skírð til iðrunar og syndafyrirgefningar í frumkristninni, en Kristur lagði hendur sínar yfir börnin og blessaði þau. Lærisveinarnir ávítuðu þá sem færðu börnin til Jesú en þá sagði Kristur: Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki því slíkra er Guðsríki (Mark. 10-13). Lærisveinarnir hafa hlýtt Herra sínum og blessað litlu börnin, þegar svo bar til, jafnhliða því að skíra þá sem tóku trú sjálfviljugir og ábyrgir gjörða sinna. Eftir upprisu Krists voru lærisveinarnir skírðir í heilögum Anda á hvítasunnunni í Jerúsalem, töluðu öðrum tungum eins og andinn gaf þeim að mæla og vegsömuðu Guð (Post. 2-5). Þeir ferðuðust víða, stofnuðu söfnuði og uppbygging safnaðarstarfsins voru náðargjafir heilags Anda, þær nefndust: Lækningargjáfan biðja fyrir sjúkum, framkvæmd kraftaverka, tala nýjum tungum, spá, en sá sem spáir þýðir nýja tungutalið svo viðstaddir skilji tungutalið. Greining anda reka út illa anda, líknarstörf, stjórnarstörf og umsjón með fjáröflun safnaðarstarfsins. Biskupsstarfið var hirðisstarf sérhvers safnaðar en ekki yfirhirðis eða yfirbiskupsstarf. Jesús Kristur er yfirhirðirinn (1. Pét. 5-4). Einnig er tilgreint djáknastarfið. En ábyrgðarmesta náðargjöfin var postulastarfið, að prédika og kenna orð Guðs. Í Jakbr. 3-1 segir: Verið ekki margir kennarar, bræður mínir, því að þér vitið að vér munum fá þyngri dóm. Það er þungur dómur að taka af guðsorði, bæta við eða breyta merkingu þess. Páll postuli sagði: Farið ekki lengra en ritað er. (1. Kor. 4-6.)
Ekki tekið alvarlega
Kristur sagði: Til einskis dýrka þeir mig þegar þeir kenna mannaboðorð og mannalærdóma. Þjóðkirkjuprestar hafa fengið þann undirbúning og starfsmenntun að taka kristniboð frumkristninnar ekki alvarlega. Prestar hafa m.a. messuformið og hátíðleikann en enginn þarf að frelsast því allir eru skírðir barnaskírn þegar þeir vita hvorki í þennan heim eða annan, og sú athöfn á að fullkomnast með fermingunni. Prestar segja að Kristur sé einkasonur Guðs. Það er ekki samkvæmt fagnaðarboðskapnum. Kristur nefndi sig sjálfur eingetinn son Guðs eða stundum mannsson, en aldrei einkason. Orðið eingetinn sonur og einkasonur er ekki sama hugtakið. Enda hvernig má það vera þar sem Kristur er nefndur: Frumburður meðal margra bræðra (Róm. 8-29).
Prestar segja í messunni: Ó, Guð fyrirgefðu oss syndirnar og söfnuðurinn tekur undir, en enginn hefur vitnisburð um að hafa frelsast, ekki einu sinni presturinn. Hvernig getur presturinn boðað iðrun og syndafyrirgefningu sem hann hefur ekki sjálfur vitnisburð um að hafa þegið, frelsi endurfæðingarinnar? Kristur sagði: Enginn getur séð Guðsríki nema hann endurfæðist (Jóh. 3-13). Í sunnudagsmessu RUV 7. september sl. sagði presturinn: Þegar við deyjum förum við til Guðs. Áheyrendur hljóta að hafa verið ánægðir að hlusta á þessi orð prestsins. En svo einfalt er það ekki, því að eftir dauðann kemur dómurinn. Á Stöð 2, Ísland í dag, sat fyrir svörum hjá hr. Jóni Ársæli sr. Karl Sigurbjörnsson þá nýkjörinn biskup yfir Íslandi. Jón Ársæll spurði: Hvað segirðu um ljóta karlinn, vonda karlinn, skrattann (tilv. stytt)? Sr. Karl virtist ekki hrifinn af spurningu Jóns, svaraði ekki beint, en sagði síðan m.a.: Að Guð væri svo góður að við þyrftum ekkert að óttast. Þar með varð enginn vitnisburður eða umræða um tilveru djöfulsins og slapp Satan gamli því vel í það sinnið. Ég spyr: Af hverju lét sr. Karl ekki orð Guðs tala í svari sínu við spurningu Jóns Ársæls? Vandamálið er að prestar sem eru fyrst og fremst postular, þjónar orðsins, veigra sér við að vitna í tíma og ótíma í orð Biblíunnar, þ.e.a.s. að guðsorðið tali í þeim, en Páll postuli segir: Fullgildur er ekki sá sem mælir fram með sjálfum sér, heldur sá sem Drottinn mælir fram með (2. Kor. 10-18).
Frá vöggu til grafar
Það er mín skoðun að prestastörf innan þjóðkirkjunnar hafi ætíð verið nátengd lífi og starfi þjóðarinnar, það má segja frá vöggu til grafar. Fyrir utan messurnar, hafa prestar ætíð verið viðbúnir og til taks á gleði- og sorgarstundum fjölskyldunnar. Það kærleiksstarf ber að þakka. Prestar hafa að beiðni aðstandenda lagt það á sig að hafa minningarorð um líf og störf látinna ástvina sóknarbarna sinna. Ekki má gleyma helgisöng kirkjukóranna ásamt undirspilurum Drottni til dýrðar. Það er sannarlega hátíðarstund fjölskyldunnar þegar hvítvoðungurinn fær nafn sitt (nöfn) innritað og staðfest bæði á himni og jörð með bænum og fyrirbænum prestsins. Það sama má segja um bænirnar og guðsorðaveganesti fermingarbarna. En þessar kristilegu athafnir með börn og unglinga eru ekki skírn til iðrunar og syndafyrirgefningar í andakt frumkristninnar, heldur bænir og blessunarorð prestsins í nafni Drottins fyrir ungviðinu, foreldrum og fjölskyldum þeirra.
Breytinga er þörf
Breytinga er þörf. Starfssvið þjóðkirkjupresta er alltof viðamikið og náðargjafir Drottins til uppbyggingar safnaðarstarfsins eru varla fyrir hendi. Að því leyti er þjóðkirkjan andlega vannærð stofnun. Ég tel upp fjögur atriði sem að mínu mati þarf að breyta:
1. Guðfræðideild heimspekideildar Háskóla Íslands, sem útskrifar prestsefni þjóðkirkjunnar, á að leggja niður.
2. Að stofnuð skuli presta-postuladeild innan þjóðkirkjunnar sem sé fyrst og fremst uppbyggð á orðum Biblíunnar og á bænarsamfélagi í skjóli náðargjafa Guðs. En Guð gefur einum og sérhverjum þá náðargjöf sem honum þóknast til uppbyggingar safnaðarstarfsins, en enginn hefur allar náðargjafir Guðs.
3. Að sérhver þjóðkirkjusöfnuður starfi sjálfstætt, ráði sinn prest og biskup-hirði safnaðarstarfsins og aðra starfskrafta.
4. Að þjóðkirkjusöfnuðirnir í landinu hafi sameiginlega skrifstofu. Það er mín skoðun að greiðslur þegnanna til ríkisins í þágu þjóðkirkjunnar, m.a. safnaðargjöldin, eigi að renna beint til þjóðkirkjusafnaðanna í landinu.
Höfundur er húsmóðir í Garðabæ.
Ásdís Erlingsdóttir