ÍSLANDSBANKI hefur fyrstur íslenskra banka tekið í notkun vefþjón með 128 bita DES dulritun, sem er sú öflugasta sem fáanleg er á almennum markaði. Dulritunin gerir viðskiptavinum bankans kleift að sinna bankaviðskiptum sínum um Netið án þess að eiga á hættu að óprúttnir geti hagnýtt sér þær upplýsingar sem fara á milli bankans og notandans.
Íslandsbanki tekur upp dulritun til að auka öryggi bankaviðskipta á netinuStóraukið öryggi í netviðskiptum
ÍSLANDSBANKI hefur fyrstur íslenskra banka tekið í notkun vefþjón með 128 bita DES dulritun, sem er sú öflugasta sem fáanleg er á almennum markaði. Dulritunin gerir viðskiptavinum bankans kleift að sinna bankaviðskiptum sínum um Netið án þess að eiga á hættu að óprúttnir geti hagnýtt sér þær upplýsingar sem fara á milli bankans og notandans.
Dulritun sú sem bankinn hyggst nota byggist á því að í hverjum vafra er dulritaður lykill sem vefþjónninn getur lesið. Ef hann finnur viðkomandi lykil kemur hann á sambandi við vafrann, sendir honum dulritaðan lykil á móti, og eftir það eru öll boðskipti vafra og vefþjóns læst með svokallaðri 128 bita DES dulritun. Allt fram á síðasta ár var bandarískum fyrirtækjum óheimilt að selja slíka dulritun úr landi, enda var hún flokkuð sem hergögn. Síðastliðið vor breyttu bandarísk yfirvöld aftur á móti reglum þeim sem giltu um slíkan útflutning á þann veg að selja mátti viðurkenndum fjármálastofnunum í vinveittum ríkjum slíkan hugbúnað. Búnaðurinn sem Íslandsbanki keypti er frá Netscape fyrirtækinu sem er einn helsti framleiðandi vefþjóna í heiminum í dag. Að sögn Hauks Oddssonar hjá Íslandsbanka var bankinn sá 20. í heimi til að bjóða fjárhagslegar færslur á Netinu, í júlí 1996, en vegna takmarkaðs öryggis var einungis leyfilegt að gera millifærslur milli eigin reikninga. "Með tilkomu lengri lykils verður mögulegt að bjóða mun víðtækari þjónustu á Netinu."
128 bita lykillinn er sá fullkomnasti sem hægt er að fá sem stendur, en hann leysir af eldri gerðir, 56 bita og 40 bita. Á sínum tíma þótti 40 bita lykill hæfilega öflugur, en hann var brotinn upp fyrir rúmu ári og 56 bita lykillinn fyrr á þessu ári þegar tugþúsundir tölva voru tengdar saman yfir Netið og þannig tókst að brjóta lykilinn upp á nokkrum mánuðum. 128 bita lykillinn er aftur á móti margfalt öflugri. Sé miðað við það tölvuafl sem nýtt var til að brjóta upp 56 bita lykilinn tæki fræðilega tugmilljarða ára að brjóta upp 128 bita DES dulritun.
Haukur segir að bankinn muni fara sér tiltölulega hægt í að að auka viðþjónustu sína á Netinu, öryggið verði áfram haft í fyrrirúmi. "Þó er rétt að hafa í huga að hugtakið "hægt" í þessu tilfelli er afstætt því Netárið er stutt."
Að sögn Hauks er vefþjónninn þegar kominn upp hjá bankanum, en ekki hefur verið opnað fyrir viðskipti. Það verður gert á næstu dögum. Nýjar gerðir helstu vafra, Netscape Navigator 4.x og Internet Explorer 4.x, nýtast til samskipta við vefþjóninn nýja, en eldri gerðir ráða síður við 128 bita dulritun.