FULLTRÚAR í bæjarstjórn Akureyrar eru almennt ánægðir með tillögur um að reisa íbúðir fyrir aldraða á svæðinu við norðurhluta Mýrarvegar. Á fundi skipulagsnefndar á dögunum var samþykkt að kynna tvær tillögur,
Tillögur um íbúðir fyrir eldri borgara við Mýrarveg Tvö 7 hæða

fjölbýlishús

FULLTRÚAR í bæjarstjórn Akureyrar eru almennt ánægðir með tillögur um að reisa íbúðir fyrir aldraða á svæðinu við norðurhluta Mýrarvegar.

Á fundi skipulagsnefndar á dögunum var samþykkt að kynna tvær tillögur, annars vegar um byggingu tveggja sjö hæða fjölbýlishúsa með alls 42 íbúðum og hins vegar um eitt sjö hæða fjölbýlishús með 21 íbúð og eitt tveggja hæða fjölbýlishús með 14 íbúðum.

Gísli Bragi Hjartarson, bæjarfulltrúi og formaður skipulagsnefndar, sagði að fram hefði komið í skoðanakönnun meðal eldri borgara að flestir vildu að byggt yrði á suðurbrekku og því hentaði þessi staðsetning vel. Nefndi hann að nú væru langir biðlistar eftir þeim íbúðum sem fyrir væru, á fimmta tug manna biði eftir íbúð í Víðilundi og um þrír tugi eftir íbúð í Lindarsíðu.

Leggja húsin á hliðina

Fram kom í máli bæjarfulltrúa að húsin væru ansi há og lagði Sigfríður Þorsteinsdóttir, Framsóknarflokki, til að þau yrðu lögð á hliðina, byggð á einni eða tveimur hæðum. Sigurður J. Sigurðsson, Sjálfstæðisflokki, nefndi að snjómokstur yrði mun minni þegar húsin væru há, en hann taldi mikilvægt að hraða málinu. Þá komu einnig fram vangaveltur um að íbúðirnar yrðu dýrar ef byggðar yrðu bílageymslur undir húsunum, en fram hafi komið í könnuninni að fólk vildi sem ódýrastar íbúðir.



Morgunblaðið/Kristján FRUMTILLÖGUR að skipulagi íbúðasvæðis við norðurhluta Mýrarvegar voru kynntar á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag.