Afkoma kirkjugarða versnað
FJÁRHAGSLEG afkoma stærstu
kirkjugarða landsins hefur versnað stórlega undanfarin misseri og hafa tekjur kirkjugarðanna skerst um meira en 40% frá árinu 1990 með lækkun á kirkjugarðsgjöldum, afnámi aðstöðugjalds og kirkjugarðslögum frá 1993, en þau skylda kirkjugarða til að greiða kostnað af prestsþjónustu við útfarir.
Þetta kemur fram í stjórnarfrumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Með frumvarpinu er lagt til að tekjur kirkjugarða verði auknar með því að hækka kirkjugarðsgjöld meira en nemur árlegri hækkun samkvæmt gildandi lögum. Einnig er lagt til að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma verði undanþegnir því í tvö ár að greiða framlag til Kirkjugarðasjóðs. Jafnframt er lagt til að Ríkisendurskoðun fái heimild til að kanna ársreikninga og gögn varðandi sóknargjöld, en sú heimild gildir nú fyrir kirkjugarða að því er fram kemur í greinargerð frumvarpsins.
Tekjur aukast um 15 milljónir
Í frumvarpinu er lagt til að sóknargjöld hækki um 6,3% frá fyrra ári en að kirkjugarðsgjöld hækki um 7,6% auk þess sem þau hækki sem nemur 1,3% hækkun sóknargjalda svo að tryggja megi kirkjugörðum aukið fjármagn til að geta sinnt lögboðnum verkefnum sínum, að því er kemur fram í greinargerð frumvarpsins.
Þar segir ennfremur að þessi breyting muni auka tekjur kirkjugarða um 15,3 milljónir króna. Samkvæmt greinargerð er sérstakri eftirlitsnefnd ætlað að fylgjast með afkomu kirkjugarðanna á allra næstu árum og mun hún gera tillögu til ráðuneytisins um hvort rétt sé að hækkunin verði varanleg eða hvort rétt sé að færa kirkjugarðsgjald til fyrra horfs.
Í greinargerð segir ennfremur að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma standi frammi fyrir því að þurfa að fjölga kirkjugörðum, en því fylgi mikill stofnkostnaður. Því er lagt til að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma verði tímabundið undanþegnir því að greiða 8% lögboðið framlag í Kirkjugarðasjóð árin 1998 og 1999 til að draga úr fjárhagsvanda þeirra. Við þetta mun ráðstöfunarfé Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma aukast um 15 milljónir króna hvort árið, samkvæmt greinargerð frumvarpsins.
Morgunblaðið/Golli MEÐ stjórnarfrumvarpinu er lagt til að tekjur kirkjugarða verði auknar með því að hækka kirkjugarðsgjöld meira en nemur árlegri hækkun samkvæmt gildandi lögum.