Schröder styrkir
stöðu sína
GERHARD Schröder, forsætisráðherra Neðra-Saxlands sem nýlega
var í opinberri heimsókn á Íslandi, heldur á mynd af sjálfum sér í Súpermanns-gervi á flokksþingi þýzka jafnaðarmannaflokksins, SPD, sem lauk í Hannover í gær.
Schröder bætti stöðu sína innan flokksins með beztu útkomu sem hann hefur fengið fram að þessu í kjöri til setu í flokksstjórninni. 74,7% þingfulltrúa léðu Schröder atkvæði sitt, en honum hefur í gegnum tíðina tekizt að afla sér tortryggni margra flokksmanna, ekki sízt með efnahagsstefnu sinni sem þykir vinsamleg atvinnulífinu og hefur skipað honum til hægri innan flokksins.
Ekki varð hins vegar úr því skorið á hinu þriggja daga langa flokksþingi hvort flokksformaðurinn Oskar Lafontaine eða Schröder yrði kanzlaraefni flokksins í kosningum til Sambandsþingsins næsta haust, en samkvæmt skoðanakönnunum telja flestir Þjóðverjar Schröder vera manninn sem getur sigrað Helmut Kohl í kosningum.
Það sýndi sig reyndar einnig á flokksþinginu að Lafontaine hefur stjórn flokksins örugglega í hendi sér. Hann hlaut staðfestingu 93,2% þingfulltrúa í embætti flokksformanns.