Tilkynnir vinnslustöðvun
vegna verkfalls vélstjóra
VINNSLUSTÖÐIN í Vestmannaeyjum hefur tilkynnt um fyrirhugaða vinnslustöðun hjá fyrirtækinu með fjögurra vikna fyrirvara. Alls munu
því um 200 starfsmenn fara af launaskrá um áramótin nema takist að tryggja hráefni til vinnslu. Sighvatur Bjarnason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að hráefnisskortur sé fyrirsjáanlegur um jól og áramót og komi til verkfalls vélstjóra um áramót megi gera ráð fyrir að ekkert hráefni fáist til vinnslu í upphafi næsta árs.
Sighvatur sagði nauðsynlegt fyrir Vinnslustöðina að grípa til aðgerða til að draga úr þeim skaða sem hugsanlegt verkfall vélstjóra kæmi til með að hafa á starfsemi fyrirtækisins. Það væri ekki hægt að halda uppi vinnslu í stóru frystihúsunum eftir að verkfall væri skollið á.
Opnað á ný eftir áramót
Tap hefur verið á landvinnslu í frystihúsum Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn og á aðalfundi félagsins í haust sagði stjórnarformaður fyrirtækisins að grípa yrði til aðgerða til að stöðva tapið. Sighvatur var spurður hvort það væri öruggt að rekstur yrði hafinn í báðum frystihúsunum eftir áramót þegar búið væri að leysa kjaradeilu sjómanna.
"Já, það er öruggt. Það hefur mikið verið að rofa til í landvinnslunni samhliða batnandi umhverfi. Afkoman hefur batnað umtalsvert og við munum því halda öllu opnu, svo framarlega sem það skilar arðsemi."
Gengi á hlutabréfum í Vinnslustöðinni féll um 9,5% í gær og fór niður í 1,63. Sighvatur sagðist ekki geta skýrt þessa breytingu. Það væri óeðlilegt að tengja uppsagnirnar við lækkað gengi hlutabréfanna vegna þess að með uppsögnunum væri fyrirtækið að verja sig áföllum og kostnaði. Þessi aðgerð væri því frekar fallin til að bæta afkomuna heldur en hitt. Hann sagði að áfram væri gott útlit í loðnuvinnslunni og afkoma í landvinnslu væri að batna. Síldarvertíðin hefði verið döpur, en ekki hefði verið reiknað með mikilli síldarvinnslu í haust í áætlunum fyrirtækisins. Það væri því ekki tilefni til sérstakrar svartsýni um rekstur Vinnslustöðvarinnar.
Efasemdir um lögmæti uppsagnanna
Jón Kjartansson, formaður Verkalýðsfélags Vestmannaeyja, sagðist harma þessar uppsagnir. Hann sagðist ekki vera sannfærður um að þær væru lögmætar og vísaði til dóms frá síðasta ári þar sem uppsagnir Fiskiðjunnar Skagfirðings á Sauðárkróki voru dæmdar ólöglegar. Í mörgum tilvikum væri verið að segja upp eiginkonum sjómanna sem hefðu boðað verkfall og því mætti líta svo á að þessar uppsagnir hefðu áhrif á verkfallið.
Verkamannasambandið hefur falið lögmanni sínum að meta hvort hugsanlegar uppsagnir fiskvinnslufólks í tengslum við boðað verkfall sjómanna eru löglegar. Forystumenn VMSÍ og Samtaka fiskvinnslustöðva ætla að fara yfir málið á sameiginlegum fundi á morgun.