RÚSSNESKIR björgunarmenn gáfu í gær upp alla von um að finna menn á lífi í Zyrjanoskaja-námunni í Novokuznetsk, en 68 námamenn eru sagðir hafa farist. Öflug gassprenging varð í námunni á vaktaskiptum í fyrradag. Lík 67 manna höfðu náðst upp í gær og eins var enn saknað.
Michelinmaður í megrun
FEITLAGNI Michelinmaðurinn, tákn frönsku hjólbarðaverksmiðjanna, sem verður 100 ára á næsta ári, hefur verið settur í megrun. Bústni karlinn víkur fyrir öðrum grennri, því "varadekkin" um mittið hverfa. Auk þess að framleiða dekk gefur Michelin út virtasta veitingahúsavísi heims.
Máli barnfóstru flýtt
HÆSTIRÉTTUR Massachusettsríkis ákvað í gær að veita máli bresku barnfóstrunnar Louise Woodward flýtimeðferð og taka það fyrir hjá fullskipuðum rétti í mars. Bæði saksóknarar og verjendur hrósuðu sigri. Hafnaði rétturinn kröfu saksóknara um að hneppa hana í varðhald á ný og verður Woodward því áfram frjáls ferða sinna innan Massachusetts.
Leita farsíma í flugvélum
ÞÝSKA flugfélagið Lufthansa hefur tekið í notkun símavara, lítið rafeindatæki sem nemur strax bylgjur frá farsímum sem farþegar kunna að nota um borð. Við slíku liggur lagabann í Þýskalandi en notkun síma og rafeindatækja er talin geta truflað siglingatæki flugvéla.
Ber að hætta verkfalli
ÍSRAELSKUR félagsdómur úrskurðaði allsherjarverkfall í landinu ólögmætt í gær og skipaði tæplega 700.000 launþegum að hverfa aftur til starfa síðdegis. Búist var við að ákvörðunin yrði hundsuð.
Stjórnarkreppa leyst
PAKISTANSKA ríkisstjórnin lofaði í gær herinn fyrir hlutverk hans í því að leysa úr því kreppuástandi sem stjórn landsins var komin í. Þessu kreppástandi lyktaði með afsögn forsetans Farooqs Leghari í fyrradag og þar með sigri Nawaz Sharifs forsætisráðherra og flokks hans, Múslimabandalagsins.
Michelin-maðurinn.