SIGFÚS E. Arnþórsson hætti störfum sem ritstjóri Vikudags í gær, en blaðið kemur út á morgun, föstudag, í fyrsta sinn og verður gefið út á Akureyri einu sinni í viku. Hlutafélagið Nýr dagur gefur blaðið út, en framkvæmdastjóri er Hjörleifur Hallgríms. Sigfús hefur starfað við undirbúning vegna útkomu blaðsins í um einn mánuð og sagðist hann hafa lagt mikla vinnu í hann, m.a.
Vikudagur kemur út í fyrsta sinn á morgun Ritstjórinn hætti

SIGFÚS E. Arnþórsson hætti störfum sem ritstjóri Vikudags í gær, en blaðið kemur út á morgun, föstudag, í fyrsta sinn og verður gefið út á Akureyri einu sinni í viku. Hlutafélagið Nýr dagur gefur blaðið út, en framkvæmdastjóri er Hjörleifur Hallgríms.

Sigfús hefur starfað við undirbúning vegna útkomu blaðsins í um einn mánuð og sagðist hann hafa lagt mikla vinnu í hann, m.a. lagt drög að fjölmörgum efnisþáttum. Enginn þeirra yrði þó í blaðinu á morgun því það væri gefið út samkvæmt forskrift framkvæmdastjórans og kunningja hans. "Ég labbaði því bara út því ég vil ekki ritstjórnarlega ábyrgð á efni sem ég hef ekki komið nálægt á nokkurn hátt," sagði Sigfús. "Mér sýnist þetta ætla að verða frísklegt útilífsblað og óska þeim góðs gengis." Þá nefndi hann einnig að ekki hefði verið lagt mikið í tækjakost og annað sem til þyrfti við blaðaútgáfu. "Þeir þeir töluðu um að endurvekja gamla Dag vissi ég ekki að þeir meintu það í svona bókstaflegum skilningi."

Margir volgir

Hjörleifur Hallgríms sagði að ekki væri búið að ganga frá ráðningu nýs ritstjóra í stað Sigfúsar, margir væru volgir og sjálfur væri hann þrælheitur, en hann hefði mikla reynslu af því að ritstýra blöðum. "Það kom mér í raun ekki á óvart að Sigfús skyldi hætta, ég kom hingað um hádegi á mánudag og sá hvað var í gangi, en það hafði ósköp lítið verið gert varðandi undirbúning," sagði Hjörleifur.

Vikudegi verður dreift í hvert hús á Akureyri næstu þrjá föstudaga en blaðið verður selt í áskrift eftir áramót. Í blaðinu verða, að sögn Hjörleifs, fréttir, viðtöl, greinar og auglýsingar. "Þetta er beint framhald af gamla Degi og mér líkar það vel sem gömlum Akureyringi," sagði Hjörleifur.