Ármenningar og KA-
menn bragðarefir
Sveitakeppni Júdósambands Ís lands fór fram í íþróttahúsinu
við Austuberg í Breiðholti um síð ustu helgi. Auk karlaflokks var keppt í tveimur aldursflokkum, en í þeim reyndu tæplega fimmtíu júdókappar með sér. Sýndu þeir mikið og glæsilegt úrval af brögðum sum tókust, en önnur ekki. Margir ungir keppendur létu mikið að sér kveða og sýndu um leið að framtíðin er björt í júdóíþróttinni á Íslandi.
KA-menn, sem urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki, áttu sigursveitina í flokki 15 ára og yngri. Sveitin hlaut fullt hús stiga fjóra vinninga, en auk þess alls fimmtán sigra einstaklinga og 140 tæknistig. Má geta þess að ippon, fullnaðarsigur í stakri glímu, gefur tíu stig.
Sveit Grindvíkinga hafnaði í öðru sæti. Hún hlaut tvo vinninga, 12 einstaklingssigra og 120 tæknistig. A-sveit Ármenninga fékk einnig tvo vinninga, en varð að gera sér þriðja sætið að góðu vegna þess að hún vann þremur færri einstaklingssigra en Grindvíkingar, eða níu. Að auki hlaut Ármann 75 tæknistig.
Í flokki keppenda yngri en 21 árs sigruðu Ármenningar. Þeir hlutu þrjá vinninga, tíu einstaklingssigra og 95 tæknistig. Selfyssingar komu næstir með tvo vinninga, 9 einstaklingssigra og 90 stig. A-sveit KA varð þriðja, fékk einn vinning, átta sigra einstaklinga auk 75 tæknistiga.
Morgunblaðið/Edwin Rögnvaldsson UNGIR júdókappar sýndu oft og tíðum falleg brögð í Sveitakeppni JSÍ um síðustu helgi. Hér eigast tveir efnilegir drengir við í harðri rimmu. Edwin
Rögnvaldsson
skrifar