LÖGÐ hefur verið fram á Alþingi þingsályktunartillaga þess efnis að stefna beri að því að öll hefðbundin matvælaframleiðsla skuli vottuð á forsendum sjálfbærrar þróunar fyrir árið 2001. Skal á þeim forsendum stefnt að því að 20% landbúnaðarframleiðslunnar verði vottuð lífræn. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Gísli S. Einarsson, þingmaður þingflokks jafnaðarmanna.

Verði vottuð á forsendum

sjálfbærrar þróunar

LÖGÐ hefur verið fram á Alþingi þingsályktunartillaga þess efnis að stefna beri að því að öll hefðbundin matvælaframleiðsla skuli vottuð á forsendum sjálfbærrar þróunar fyrir árið 2001. Skal á þeim forsendum stefnt að því að 20% landbúnaðarframleiðslunnar verði vottuð lífræn. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Gísli S. Einarsson, þingmaður þingflokks jafnaðarmanna.

Í greinargerð frumvarpsins segir m.a. að langtímamarkmið í landbúnaði verði að snúast um sjálfbæran búskap sem sé grundvöllur lífrænnar matvælaframleiðslu og að greinin standist kröfur um vörugæði, meðferð dýra og vistvæna sambúð við náttúruna. Augljóst sé að maturinn endurspegli umhverfið sem hann er framleiddur í.

Í greinargerð segir einnig að ljóst megi vera að neytandinn geri æ meiri kröfur um að vita um uppruna þeirra matvæla sem hann kaupi, hvaða tegund sem um er að ræða. "Það verður spurt um alla þætti, frá veiðum á fiski eða framleiðslu landbúnaðarvara til þess þegar afurðirnar eru komnar á borð neytenda. Því verður að vinna ötullega að framgangi vottunar íslenskra matvæla um heilbrigði, hreinleika og hollustu." Auk þess segir í greinargerð að Ísland eigi og geti verið forustuland hvað varðar vottun sjávarafurða. Ísland hafi þá sérstöðu að 82% gjaldeyristekna vegna vöruútflutnings komi úr sjávarútvegi en það undirstriki mikilvægi þessa máls.