Vigdís í veiga-
miklu hlutverki
VIGDÍS Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, mun gegna
veigamiklu hlutverki á tónleikum, sem haldnir verða til heiðurs handhöfum friðarverðlauna Nóbels í Ósló 11. desember næstkomandi, daginn eftir verðlaunaafhendinguna. Vigdís mun verða "gestgjafi" tónleikanna, sem sendir verða út í sjónvarpi til tuga ríkja.
Samtökin Alþjóðleg herferð fyrir jarðsprengjubanni (ICBL) og leiðtogi þeirra, Jody Williams, fá friðarverðlaunin afhent í Ósló 10. desember. Daginn eftir verða þeim til heiðurs haldnir tónleikar í Þjóðleikhúsinu í Ósló, þar sem Mariah Carey, Sinead O'Connor og fleiri heimsfrægir tónlistarmenn koma fram.
Sjónvarpað til tuga ríkja
Að sögn Odd Arvid Strømstad, sem hefur skipulagningu tónleikanna með höndum, varð Vigdís Finnbogadóttir fyrir valinu sem gestgjafi "vegna þess að hún er Norðurlandabúi, kona sem hefur gegnt embætti þjóðhöfðingja og gamall leikhússtjóri. Það voru margar góðar ástæður fyrir því að við leituðum til hennar."
Það kemur í hlut Vigdísar að flytja ávarp, þar sem áheyrendur verða boðnir velkomnir. Þar mun hún jafnframt fjalla um eigin afskipti af alþjóðamálum og mikilvægi Nóbelsverðlaunanna. Þá mun Vigdís kalla verðlaunahafana upp á svið og ræða við þá og loks mun hún slíta samkomunni, að sögn Strømstads.
Hann segir að sjónvarpsstöðvar víða um heim hafi sýnt tónleikunum mikinn áhuga. "Í fyrra keyptu stöðvar í 35 ríkjum sýningarréttinn og þær verða talsvert fleiri í ár, auk þess sem Music Television (MTV) í Bandaríkjunum mun senda tónleikana út," segir Strømstad. "Vigdís ætti með þessu móti að geta talað til breiðs hóps áheyrenda."