FRAMKVÆMDIR eru nú að hefjast við stækkun og endurbætur á fiskimjölsverksmiðju Ísfélags Vestmannaeyja hf. og er að því stefnt að hún verði tekin í gagnið á haustvertíðinni á næsta ári. Verður verksmiðjan meðal stærstu mjölverksmiðja landsins og afkastageta hennar rúmlega 1.000 tonn á sólarhring. Heildarfjárfesting í byggingu og tækjabúnaði er áætluð 450­500 milljónir kr.
Ísfélag Vestmannaeyja reisir eina af stærstu fiskimjölsverksmiðjum landsins

Afkastagetan eykst í rúm

1.000 tonn á sólarhring

FRAMKVÆMDIR eru nú að hefjast við stækkun og endurbætur á fiskimjölsverksmiðju Ísfélags Vestmannaeyja hf. og er að því stefnt að hún verði tekin í gagnið á haustvertíðinni á næsta ári. Verður verksmiðjan meðal stærstu mjölverksmiðja landsins og afkastageta hennar rúmlega 1.000 tonn á sólarhring. Heildarfjárfesting í byggingu og tækjabúnaði er áætluð 450­500 milljónir kr.

Að sögn Þórðar Karlssonar, eftirlitsmanns framkvæmda hjá Ísfélaginu, verður 1.065 fermetra nýbygging reist við núverandi fiskimjölsverksmiðju, auk þess sem byggt verður yfir eldra húsnæði verksmiðjunnar, þannig að samanlögð stærð verksmiðjunnar verður 2.250 fm eða rúmlega 30 þúsund rúmmetrar. Alls bárust sjö tilboð í smíði hússins í alútboði sem fram fór í haust. Lægsta tilboðið var frá Vörnum hf. í Garðabæ að upphæð 70 milljónir kr. en hæsta tilboðið 146 millj. kr. Var ákveðið að ganga að tilboði Varna hf. en í tilboði þess er gert ráð fyrir að sett verði upp stálgrind sem keypt verður frá fyrirtækinu World Atlas í Bretlandi.

"Jarðvegsframkvæmdir eru þegar hafnar og um miðjan desember hefjast framkvæmdir við sökkla undir bygginguna. Byrjað verður að reisa húsið um miðjan mars og á verktaki að skila byggingunni af sér í lok maí, klæddri og fullfrágenginni að utan og einangraðri og klæddri að innan. Jafnhliða þessum framkvæmdum verður hreinsað út úr gömlu verksmiðjunni og settur nýr búnaður upp þannig að húsið verði tilbúið fyrir næstu haustvertíð," sagði Þórður.

25 m skorsteinn frá Héðni og tækjabúnaður frá Noregi

Fiskimjölsverksmiðja Ísfélagsins hefur ekki haft starfsleyfi yfir sumartímann vegna lyktarmengunar en á því verður væntanlega breyting með tilkomu nýju verksmiðjunnar því setja á upp fullkominn hreinsibúnað. Að sögn Þórðar hófst fyrir nokkru bygging ketilhúss og verður þar bætt við nýjum katli. Þá hefur vélsmiðjan Héðinn smíðað 25 metra háan skorstein fyrir verksmiðjuna sem afhentur verður um miðja næstu viku. Að sögn Þórðar sér Héðinn einnig um uppsetningu annars tækjabúnaðar í verksmiðjurnar sem keyptur er frá Noregi. "Þegar þetta verður komið upp á öll lykt og reykur að heyra sögunni til," sagði hann.

Ísfélagið hefur staðið í frekari framkvæmdum að undanförnu en á síðasta ári hófst vinna við stækkun og endurbætur á frystihúsi félagsins. Hafa m.a. verið settar upp nýjar flæðilínur í húsinu. Er þessum framkvæmdum nú að mestu lokið.