GÍSLI S. Einarsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Guðmundur Árni Stefánsson, þingmenn þingflokks jafnaðarmanna, hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga þess efnis að heildarlaun á mánuði fyrir 16 ára og eldri skuli ekki vera undir 85.000 kr. fyrir fulla dagvinnu. Í greinargerð segir m.a. að meginvandinn í íslensku þjóðfélagi sé fátækt sem stafi af lágum launum.
Lágmarkslaun verði ekki undir 85.000

GÍSLI S. Einarsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Guðmundur Árni Stefánsson, þingmenn þingflokks jafnaðarmanna, hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga þess efnis að heildarlaun á mánuði fyrir 16 ára og eldri skuli ekki vera undir 85.000 kr. fyrir fulla dagvinnu.

Í greinargerð segir m.a. að meginvandinn í íslensku þjóðfélagi sé fátækt sem stafi af lágum launum. Þau hafi leitt til fólksflótta frá landinu. Þá segir að einkenni íslensks hagkerfis séu hin lágu taxtalaun og að um nokkra hríð hafi ekki verið hægt að framfleyta fjölskyldu með lægstu taxtalaunum. "Launakerfið á Íslandi einkennist af umfangsmiklum feluleik með raunveruleg launakjör. Þannig hafa ýmiss konar aukagreiðslur komið til viðbótar taxtalaunum," segir í greinargerð. "Annað einkenni á íslensku atvinnulífi er hve langan vinnutíma íslenskir launamenn vinna. Í samanburði sem var gerður milli Íslands og Danmerkur kom í ljós að launamaður hérlendis vinnur um 50 klst. á viku að meðaltali en danskur launamaður 39 klst. Þetta sýnir að íslenskur launamaður vinnur að jafnaði tíu vikum lengur en danskur launamaður á ári hverju. Lífskjörum hér á landi, sem eru betri en launin gefa til kynna, er þannig augljóslega fyrst og fremst haldið uppi með löngum vinnudegi."

Að síðustu segir í greinargerð að frumvarpið sé liður í þeirri stefnumörkun jafnaðarmanna að skapa hér mannsæmandi umhverfi fyrir launafólk og stuðla jafnframt að heilbrigðu og þróttmiklu efnahagslífi.