Estóníuskýrslan
birt en efasemdir
enn til staðar
Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.
,SKÝRSLAN á að binda enda á
allar vangaveltur," sagði formaður alþjóðlegrar rannsóknarnefndar um Estóníuslysið, þegar hann lagði hana fram í Tallinn í gær. Það er þó mikil bjartsýni, því þegar höfðu komið fram atriði, sem þykja orka tvímælis. Í skýrslunni segir að slysið megi rekja til þess að festingar á hlerum stafnsins hafi gefið sig í miklum öldugangi, auk þess sem áhöfnin er gagnrýnd fyrir að bregðast ekki rétt við.
Forráðamenn Mayer-skipasmíðastöðvarinnar, sem byggði ferjuna fyrir fjórtán árum, hafna ásökunum um hönnunargalla og benda á að viðhaldinu hafi verið áfátt. Margir efast um að skýrslan taki tillit til allra atriða og deilur hafa sett svip á nefndarstarfið. Í viðtölum í sænska útvarpinu í gær við fólk, sem komst af eða missti aðstandendur kom fram að enginn var trúaður á að ferjuslysið fyrir þremur árum væri að fullu skýrt en það kostaði 852 menn lífið.
Búist var við að áhöfninni yrði ekki kennt um slysið, en í skýrslunni er bent á að hún hafi ekki brugðist rétt við. Þannig hafi komið fram á sjónvarpsskjám að vatn fossaði inn, en ekki hafi verið brugðist við því nógu fljótt og hraðinn hafi verið of mikill. Ferjan hafi verið í góðu ástandi og ekkert athugavert við rekstur hennar.
Megin skýringin er samt sögð liggja í miklum öldugangi og hönnunargöllum, sem skipasmíðastöðin þvertekur fyrir og bendir á móti á að ferjan hafi verið rekin samkvæmt mjög strangri áætlun, sem ekki hafi gefið svigrúm til almennilegs viðhalds. Þar sé skýringanna að leita að mati skipasmíðastöðvarinnar.
Í nefndinni sátu sænskir, finnskir og eistneskir fulltrúar og það hefur tekið nefndina þrjú ár að komast að niðurstöðu. Nefndarstarfið hefur verið markað deilum og ásökunum, þar sem ýmsir hafa sagt sig úr nefndinni.
Að sögn eins þeirra kom fram á myndbandsupptökum frá köfun við flakið að gat væri á því. Þessar myndir hefðu síðan verið þurrkaðar út og hvergi væri fjallað um þetta gat. Þessi og fleiri dæmi um vitnisburð, sem ekki var tekinn með í skýrsluna, hafa grafið undan trúverðugleika hennar.
Það vakti athygli á blaðamannafundinum að honum var stýrt af fulltrúum bandarísks almannatengslafyrirtækis, eins þekktasta fyrirtækis í heimi á sínu sviði, sem á sínum tíma stýrði blaðamannafundum um Persaflóastríðið.