BJÖRK Guðmundsdóttir, íslenska strengjasveitin hennar og plötusnúðurinn héldu nýlega tónleika í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi til að fylgja eftir Homogenics, nýjustu plötu Bjarkar. Í báðum þessum borgum á Björk stóra aðdáendahópa og í Kaupmannahöfn seldust miðarnir á tónleika hennar upp á svipstundu, svo það voru aðeins þeir viðbragðsfljótustu sem komust að.
Tónleikar Bjarkar

Hrifningin

dofnar ekki Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. BJÖRK Guðmundsdóttir, íslenska strengjasveitin hennar og plötusnúðurinn héldu nýlega tónleika í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi til að fylgja eftir Homogenics, nýjustu plötu Bjarkar. Í báðum þessum borgum á Björk stóra aðdáendahópa og í Kaupmannahöfn seldust miðarnir á tónleika hennar upp á svipstundu, svo það voru aðeins þeir viðbragðsfljótustu sem komust að. Umsagnir blaðanna eru næstum einróma loflegar og gagnrýnendur ekki síst hrifnir af þeirri dýpt, sem liggur í tónlist Bjarkar. Undir fyrirsögninni "Heillandi frumkraftur" skrifar Dorte "Hygum" Sørensen í Politiken að Björk rífi sig auðveldlega lausa frá allri viðtekinni tónlistarhugsun og láti líkama og rödd dansa leitandi út í sönginn "Hunter" á nýjustu plötunni. Hygum Sørensen segir tónlist Bjarkar liggja víðs fjarri rokki og poppi, heldur myndi hún áleitin og undurfögur tengsl klassískrar og rafrænnar tónlistar, sem feli bæði í sér norrænt ljós og myrkur, dans stórborga og ákaft og persónulegt form heimstónlistar. Í tónlist Bjarkar ljósti saman náttúru og tækni, fortíð og framtíð, sál og líkama í samspili kringum einstaka rödd og veru, sem hitti bæði á eitthvað almennt og eitthvað nýtt og töfrandi. Hygum Sørensen er einnig mjög hrifin af samspili strengjasveitarinnar og Mark Bells sem sér um raftónlistina. Í Information talar Ralf Christensen um hve tónlist Bjarkar hafi mikið vægi, full af leikgleði og geti talist popp, en sé samt flókin og ögrandi, röddin heillandi, laglínurnar sérvitringslegar, hljómarnir fágaðir. Tónlistin sé líka full af litbrigðum og framandleg, vendilega njörvuð saman af strengjaleikurunum, sem leiki skemmtilega með og á móti Mark Bell. Í Berlingske Tidende segir Per Reinholdt Nielsen að á tónleikum Bjarkar liggi töfrar í loftinu, andstæðurnar mætist og hið ómögulega verði mögulegt. Björk sé brauðryðjandi, sem allir aðrir standi í skugganum af, og hún sé ljósárum framar öðrum söngkonum á þessu sviði. Tónlist hennar sé heillandi blanda. Í Dagens Nyheter segir Nils Hansson Björk vera mjög virðingarverða söngkonu. Hljóðsetning tónlistar hennar sé snilldarleg. Hann segist þó hafa orðið fyrir lítilsháttar vonbrigðum með tónleikana, því Björk sé einstök söngkona, sem ekki þurfi að vera með látalæti, en finnst hún hafa æpt um of. Þó honum þyki hún ekki hafa fundið sér sannfærandi samastað í teknótónlist hafi hún hingað til komið með nokkur mjög góð lög á hverri einustu plötu sinni. Í Svenska Dagbladet finnst Madeleine Levy Björk vera stífari og meira æpandi en venjulega. Tvær fyrstu plötur hennar hafi verið eins og risastórir hátalarar út í samtíðina og sem túlkandi samtíðarinnar sé Björk snillingur, en blaðamanninum finnst Björk hafa minna að segja á síðustu plötunni, þegar hún sé meira upptekin af eigin hugsunum. En Björk sé brauðryðjandi, sem hafi með hugmyndum sínum um tónlist og með góðum samstarfsaðilum gert meira fyrir popptónlist en flestir aðrir og heimsókn hennar því stórmerk. Á tónleikunum finnst Levy Björk þó ekki hafa verið jafn hlý og einlæg og oft áður, þó strengjasveitin hafi spilað vel og raftónlistin falleg, en heildin hafi samt verið góð.