HAGSMUNAVERÐIR iðnrekenda létu í gær til sín taka á loftslagsráðstefnunni í Kyoto og beindu sjónum ráðstefnugesta að þeim kostnaði sem mun hljótast af aðgerðum til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, en viðræðurnar á ráðstefnunni, sem fulltrúar 166 ríkja sitja, snúast um að komast að samkomulagi um slíkar aðgerðir.
Iðnrekendur á loftslagsráðstefnunni í Kyoto í Japan

Varað við efnahags-

legum áhrifum aðgerða

Kyoto. Reuters.

HAGSMUNAVERÐIR iðnrekenda létu í gær til sín taka á loftslagsráðstefnunni í Kyoto og beindu sjónum ráðstefnugesta að þeim kostnaði sem mun hljótast af aðgerðum til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, en viðræðurnar á ráðstefnunni, sem fulltrúar 166 ríkja sitja, snúast um að komast að samkomulagi um slíkar aðgerðir.

Umhverfisverndarsamtök, sem nær einokuðu athygli fjölmiðla á fyrstu tveimur dögum ráðstefnunnar, viku af sviðinu fyrir talsmönnum iðnaðarins ­ aðallega þess bandaríska ­ sem vildu vekja athygli á því að jafnvel minniháttar minnkun á útblæstri hefði kostnað í för með sér.

Þeir sögðu að þær tillögur um aðgerðir til að draga úr útblæstri sem nú væru til umræðu myndu auk þess að kosta fyrirtæki í orkuframleiðslu, bílasmíði og annarri orkufrekri framleiðslu gífurlegar fjárhæðir einnig leiða til þess að framleiðsla og viðskipti færðust frá þeim löndum sem bezt væru fær til að takast á við vandann, þ.e. upphitun lofthjúpsins.

Bandarísk stjórnvöld vilja stefna að því að í kringum árið 2010 verði útblásturinn svipaður og hann var 1990, en ESB vill að á þessu tímabili verði dregið úr honum um 15%.

Spá flutningi orkufreks iðnaðar til þróunarlanda

"Það sem við erum að tala um eru tillögur til úrræða sem eru ekki aðeins óraunhæfar heldur beinlínis hættulegar framtíðarhorfum hagþróunar," sagði David Bank, talsmaður "Loftslagssamtaka heimsins" ( Global Climate Coalition , GCC), sem eru hagsmunasamtök um 230.000 fyrirtækja, þar á meðal risa á borð við Exxon, Mobil, General Motors og Ford.

Sú aðferð sem beinast liggur við að skila muni árangri í að draga úr útblæstri í iðnríkjunum og margir hagsmunaaðilar aðrir en iðnrekendur í orkufrekum iðnaði mæla með, er að hækka til muna verð á orku til iðnaðar og almenningsneyzlu. Þetta myndi leiða til lækkunar á orkuverði í þróunarlöndunum vegna minni eftirspurnar á heimsmarkaði.

"Þessi gífurlegi munur á orkuverði mun leiða til þess að fjárfestingar í orkufrekum iðnaði munu flytjast snarlega frá iðnríkjunum til þróunarlanda," sagði David Montgomery, varaforstjóri alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis í orkumálum.

John Novak, talsmaður Edison Electric Institute , sem helztu raforkuframleiðendur Bandaríkjanna eiga aðild að, sagði að jafnvel þótt niðurstaða ráðstefnunnar yrði sú að bandarísk stjórnvöld fengju allar sínar tillögur eins og þær liggja fyrir nú samþykktar, "myndum við samt sem áður leggjast gegn því að sett yrðu nokkur lagalega bindandi takmörk og mæla með því að slíkt samkomulag fengist staðfest."

Reuters JAPÖNSK stúlka í ráðstefnuhöllinni í Kyoto snertir á skrautlegum pappírskúlum, sem á eru letraðar áskoranir um umhyggju fyrir náttúrunni.