Sigla nær 5
þúsund km
JEPPAMENNIRNIR Freyr Jónsson og Jón Svanþórsson leggja úr
höfn í Höfðaborg í dag, samkvæmt áætlun, áleiðis til Suðurskautslandsins með suður-afríska ísbrjótnum Outeniqua. Undanfarna daga hefur verið unnið að lestun og frágangi farms fyrir siglingu um erfitt hafsvæði.
Bílarnir þóttu fallegir
Þeir félagar fóru frá Íslandi síðastliðinn sunnudag til Stokkhólms þar sem þeir hittu flesta aðra leiðangursmenn leiðangurs Sænsku pólstofnunarinnar (SWEDARP). Hópurinn flaug samdægurs þaðan um Amsterdam til Jóhannesarborgar og áfram til Höfðaborgar þar sem lent var síðdegis á mánudag. Strax var haldið til skips þar sem gámarnir með sérbúnu Toyota Land Cruiser jeppunum tveimur, tilheyrandi kerru, varahlutum og öðrum búnaði, biðu á hafnarbakkanum. Bílarnir voru hífðir um borð í gámunum. Reyndist búnaðurinn vera í góðu ástandi eftir flutninginn frá Íslandi nema hvað loft hafði sigið úr tveimur dekkjum.
Leiðangursmenn sátu á þriðjudag fund hjá SANAP, sem er Suðurskautsstofnun Suður-Afríku. Þar voru veittar frekari upplýsingar um leiðangurinn, umhverfis- og öryggismál. Einnig var fundur hjá SWEDARP. Eftir fundinn var leiðangursmönnum leyft að skoða farskjótana. Að sögn þeirra Freys og Jóns voru menn mjög áhugasamir um útbúnað og getu jeppanna og höfðu orð á því hvað þeim þætti þeir fallegir.
Veltingur og bræla
Fyrir höndum er fjórtán sólarhringa sigling nær 5 þúsund km leið að hafísröndinni beint suður af Ingólfshöfða. Reikna má með veltingi og brælu á leiðinni. Um borð mun læknir leiðangursins m.a. halda námskeið um skyndihjálp og ofkælingu. Einnig verður tíminn notaður til að setja auka GPS-tæki og ýmis vísindatæki, t.d. loftnet til íssjármælinga, í bílana.
Morgunblaðið/Jón Svanþórsson FREYR Jónsson var ánægður að sjá Toyota Land Cruiser jöklajeppana á hafnarbakkanum í Höfðaborg. Freyr og Jón Svanþórsson sigla af stað í dag áleiðis til Suðurskautslandsins.