FYRRVERANDI yfirmaður öryggisvarða Winnie Madikizela-Mandela, Jerry Richardson, fullyrti í gær að hún hefði gefið skipanir um morð og hefndaraðgerðir og sagði að hendur sínar væru "ataðar blóði" þar sem hann hefði myrt fjölda manns.
Fyrrum öryggisvörður Winnie Mandela ber vitni

Segir hendur sínar

vera "ataðar blóði"

Jóhannesarborg. Reuters.

FYRRVERANDI yfirmaður öryggisvarða Winnie Madikizela-Mandela, Jerry Richardson, fullyrti í gær að hún hefði gefið skipanir um morð og hefndaraðgerðir og sagði að hendur sínar væru "ataðar blóði" þar sem hann hefði myrt fjölda manns. Richardson, sem afplánar nú lífstíðardóm fyrir morðið á hinum fjórtán ára Stompie Seipei, bar vitni fyrir sannleiks- og sáttanefndinni í Suður-Afríku og í dag mun Winnie sjálf stíga í vitnastúkuna.

Richardson viðurkenndi að hafa verið uppljóstrari lögreglunnar á þeim tíma sem hann starfaði fyrir Winnie og að hann hefði ennfremur svikið tvo skæruliða Afríska þjóðarráðsins, sem hún bað hann að skýla.

Sagði Richardson að fyrri fullyrðing hans um að ástæðan að baki morðunum hefði verið pólitísk, hefði verið tilraun til að fá sannleiks- og sáttanefndina til að sýkna sig.

Segir Winnie hafa fyrirskipað morð

Richardson lýsti morðinu á Seipei nákvæmlega. Sagði hann að Seipei hefði verið barinn til óbóta og honum kastað margoft upp í loft og hann látinn falla á jörðina.

Winnie og öryggisverðirnir hefðu ákveðið að myrða drenginn til að koma í veg fyrir að menn kæmust á snoðir um barsmíðarnar. Richardson kvaðst sjálfur hafa stungið drenginn í hálsinn með garðklippum og neitaði því að Winnie hefði myrt drenginn. Sagði hann hana ekki hafa drepið neinn en að hún hefði gefið fyrirskipanir um mörg morð.