Frípunktar leiða ekki til hærra vöruverðs
EKKI hefur verið sýnt fram á hvorki hér á landi né í nágrannalöndunum að ýmiss konar fríðindatilboð fyrirtækja og stofnana,
til dæmis frípunktar, hafi almennt skaðleg áhrif á samkeppni og leiði til hærra vöruverðs. Þetta kom m.a. fram í svari Finns Ingólfssonar, viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns þingflokks jafnaðarmanna, á Alþingi í gær.
Í svari ráðherra kom einnig fram að þar sem Samkeppnisstofnun færi með viðskiptaskilmála greiðslukortafyrirtækja hefði hún yfirfarið skilmála vildarkorts Visa og Flugleiða og sérkorts Stöðvar 2. Sagði hann að ýmsar athugasemdir hefðu verið gerðar við einstök atriði í skilmálum greiðslukortafyrirtækjanna en að að þeim hefði alltaf verið farið.
Þá sagði ráðherra frá því að umboðsmenn neytenda á öðrum Norðurlöndum hefðu nýverið sett leiðbeinandi reglur um markaðssetningu svokallaðra tryggðarkerfa. Þær reglur kveði m.a. á um það að ávinningi eða punktum verði að vera hægt að breyta í peninga hvenær sem er og ennfremur að skýrt ætti að koma fram hvert verðmæti ávinningsins sé. "Samkeppnisráð setur væntanlega sambærilegar reglur fljótlega hér á landi með heimild í 30. grein samkeppnislaga," sagði ráðherra.