ÚTHVERFAGLEÐI, einmanaleiki og ánægja með hið flatneskjulega. Karlmenn stoltir af kynferði sínu og sérstaklega tákni þess, uppteknir af sjálfum sér, uppi í rúmi á hóteli eða á þröskuldi veggfóðraðar íbúðar. Þar sem sjónvarpið trónir eins og altari, staður er fyrir hvern hlut og hver hlutur á sínum stað.

Risháir en

einmana úthverfamenn

París. Morgunblaðið.

Hallgrímur Helgason sýndi í París stórar olíumyndir af mönnum í sínum óviðjafnanlega hversdegi. Þórunn Þórsdóttir hitti Hallgrím í sýningarsalnum.

ÚTHVERFAGLEÐI, einmanaleiki og ánægja með hið flatneskjulega. Karlmenn stoltir af kynferði sínu og sérstaklega tákni þess, uppteknir af sjálfum sér, uppi í rúmi á hóteli eða á þröskuldi veggfóðraðar íbúðar. Þar sem sjónvarpið trónir eins og altari, staður er fyrir hvern hlut og hver hlutur á sínum stað.

Þannig voru viðfangsefni Hallgríms Helgasonar, myndlistarmanns og rithöfundar, á sýningu sem nýlokið er í París. Kaldhæðnislegt skopskyn ræður ríkjum, en vegna þess hve Hallgrímur vandar sig er líka hlýja eða væntumþykja í þessum verkum. Hann segist mála fyrir fólkið sem ekki sér myndirnar, fyrir þá sem halda sig heima, hina sömu og eru í málverkunum. Fyrir næstum alla semsagt, nema helst þá sem nenna í gallerí. "Þessi málverk eru um fólk, fyrir fólk. Það er löngu kominn tími á það."

Þetta var þriðja sýning Hallgríms í París, hann sýndi skammt frá Bastillunni 1994 og tók í janúar síðastliðnum þátt í samsýningunni "Mutants" í galleríi Phillippes Rizzo við rue Saint Gilles í Marais. Þar sýnir hann nú aftur, einn, eins og karlarnir á málverkunum. "Ég er að fjalla um samband karla og kvenna og um samband karla við kynhvötina," segir hann. "Á síðustu sýningu hafði ég konur og kynlega tilveru þeirra og einhver spurði af hverju ég málaði ekki mína kynbræður." Eða sjálfan þig hugsar blaðamaður, því mynd á boðskorti sýningarinnar er tekin úr lítilli bók um Grim, fulltrúa listamannsins, með langt nef og rostungstennur.

"Grim er hliðarsjálf mitt," segir Hallgrímur. "Ég gef sjálfum mér langt nef og öðlast þar með frelsi til að gefa það líka hverju og hverjum sem er. Ég velti fyrir mér venjulegum hlutum, því sem gerist eða gerist ekki á heimilum eða hótelherbergjum einhvers staðar. Þetta gildir bæði um myndir og skrif, ég skipti árinu jafnt milli þessa og finnst að útkoman sé alltaf að verða líkari og líkari. Meira í heild eða samræmi."

Hallgrímur kveðst í verkunum núna innblásinn af bandaríska gjörningalistamanninum Paul McCarthy og ítalska meistaranum Giotto, en mest af öllum hafi Mad-teiknarinn Don Martin mótað sig. "Ég hafnaði Mad-bókum einu sinni og ef til vill má segja að Mad sé greyptur í mig. Þess vegna eru þessi málverk kannski svona teiknimyndaleg, teiknimyndasögur eru líka okkar menning, lágkúltur sem verður að list. Ég vel teikningar til að stækka í málverk og reyni að ná sterkari áhrifum með því að ýkja fólkið."

Aðspurður um lymskulega kímni og niðurlægjandi aðstæður í myndunum segir Hallgrímur: "Þetta er alvarlegur húmor. Mér fannst voða spennandi að mála heimili, að sjá fólk koma heim til sín, það er eitthvað fyndið við það, eins og hamstrar skríði í holu sína. Fyndið er sætt um leið. Þetta er líka nokkuð sem er algjörlega farið úr tísku; að vera heima hjá sér.

Myndefnin eru óþægileg og ég reyni að gera þau þægileg með vandvirkni. Þannig kemur samúðin inn." "Svolítið eins og í bókum Guðbergs," spyr þá blaðamaður og samtalið fer út um víðan völl: Berst að Erró, sem ekki hefur látið teiknimyndir alveg í friði heldur, til Íslands þar sem Hallgrímur hefur búið síðustu tvö ár, eftir fimm ára Frakklandsvist. Nú er hann að fara á flakk, komið að hálfs árs skriftímabili en líka búið að móta næstu myndir í höfðinu.



Morgunblaðið/Galerie Philippe Rizzo ERTU dauð? hrópar vonglaður maður á þessari "heima er best-mynd" sem Hallgrímur málaði á árinu. (Olía á striga, 1.90 × 1.30 m).