Jeltsín heitir 40% niðurskurði
á heraflanum við Eystrasalt
Stokkhólmi. Reuters.
BORÍS Jeltsín Rússlandsforseti
kom enn á ný á óvart í opinberri heimsókn sinni til Svíþjóðar í gær er hann hét því að Rússar myndu skera niður herafla sinn, landher og sjóher, um 40%. Jevgení Prímakov utanríkisráðherra brá við skjótt og áréttaði að forsetinn hefði eingöngu átt við norðvestur-svæðið, það er við Eystrasalt. Er þetta í annað sinn á jafnmörgum dögum sem aðstoðarmenn Jeltsíns verða að draga úr yfirlýsingum hans.
Jeltsín, sem er í þriggja daga opinberri heimsókn í Svíþjóð, ávarpaði sænska þingið í gær. Í ræðu sinni lýsti hann þeirri von að Eystrasaltssvæðið yrði eins konar "brú" milli austurs og vesturs.
Bauð hann Eystrasaltsríkjunum beint símasamband við herstöð Rússa í Kalíníngrad og aðgang að herstöðvum Rússa á svæðinu. Jafnframt minnti Prímakov á að Rússar gerðu á móti kröfu um að ríkin tryggðu rússneskum íbúum betri aðstöðu og ítrekaði andstöðu Rússa við óskir ríkjanna um aðild að Atlantshafsbandalaginu.
Rússar hafa óskað liðsinnis Svía til að fá Eystrasaltsþjóðirnar til að fallast á svokallaðar öryggistryggingar, en Jeltsín kynnti hugmyndir um þær í október sl. Stjórnir Eistlands, Lettlands og Litháen höfnuðu þeim og fullyrtu Rússar að tilboðið hefði verið misskilið.
Svíar sýndu öryggistryggingunum lítinn áhuga í upphafi en í gær fagnaði Lena Hjelm-Wallén, utanríkisráðherra Svíþjóðar, áætlunum Jeltsíns um nánari tengsl ríkja við Eystrasalt sem hluta af samstarfi Evrópuríkja í öryggismálum.
Ýktar yfirlýsingar
Jeltsín kom aðstoðarmönnum sínum og gestgjöfum í opna skjöldu í fyrradag er hann sagði Rússa ætla að fækka kjarnaoddum sínum um þriðjung. Kvaðst aðstoðarmaður hans telja að hann hefði einungis verið að leggja til að gengið yrði enn lengra í fækkun kjarnavopna en gert hefur verið ráð fyrir.
Segja rússneskir stjórnmálaskýrendur að yfirlýsingar Jeltsíns í Svíþjóðarheimsókninni séu einfeldnislegar og ýktar, hann slái sig til riddara með niðurskurði í hermálum, niðurskurði sem sé tilkominn vegna bágs efnahags.
Óvæntar yfirlýsingar/25