GUÐRÚN Helgadóttir, þingmaður Alþýðubandalags og óháðra, gagnrýndi það í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær að sjúklingum yfir 67 ára aldri sem vistuðust á langlegudeildum almennra sjúkrahúsa væri gert að greiða fyrir sjúkrahúsdvölina. Sagði hún að þar með væru lífeyrisþegar orðnir eini hópurinn í landinu sem greiddi fyrir sjúkrahúsvist sína. Vísaði Guðrún þarna m.a.
"Lífeyrisþegar eini hópurinn sem greiðir fyrir sjúkrahúsvist"

GUÐRÚN Helgadóttir, þingmaður Alþýðubandalags og óháðra, gagnrýndi það í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær að sjúklingum yfir 67 ára aldri sem vistuðust á langlegudeildum almennra sjúkrahúsa væri gert að greiða fyrir sjúkrahúsdvölina. Sagði hún að þar með væru lífeyrisþegar orðnir eini hópurinn í landinu sem greiddi fyrir sjúkrahúsvist sína. Vísaði Guðrún þarna m.a. til þess að dvelji sjúklingar lengur en fjóra mánuði samfellt á sjúkrastofnunum missi þeir niður lífeyrisgreiðslur. Taldi Guðrún að með þessu væri verið að brjóta lög um almannatryggingar og kvaðst myndi kæra einstakt tilvik um þetta til tryggingaráðs.

Máli sínu til stuðnings vísaði Guðrún m.a. í lög um almannatryggingar þar sem segir að hverjum þeim sem sjúkratryggður sé skal tryggð ókeypis vist að ráði læknis í sjúkrahúsum. Skal sjúkrahúsvist tryggð eins lengi og nauðsyn krefði ásamt læknishjálp, lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir. "Það sem hér skiptir máli er að öllum Íslendingum skal tryggð sjúkrahúsvist sé hennar þörf að ráði læknis," sagði Guðrún.

Í máli Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðisráðherra kom m.a. fram að verið væri að endurskoða lög um málefni aldraðra þar sem þetta mál yrði tekið fyrir.