ÍSLENSKA landsliðið í körfuknattleik tapaði í gærkvöldi fyrir Króötum með 74 stigum gegn 82 í geysilega skemmtilegum og spennandi leik þar sem íslensku landsliðsstrákarnir sýndu og sönnuðu að þeir eiga fullt erindi í Evrópukeppnina. Staðan í leikhléi var 29:41 þannig að enn einu sinni náðu Íslendingar að skora fleiri stig en mótherjarnir í síðari hálfleik, eins og í fyrri tveimur Evrópuleikjum.
Frækileg
framganga
ÍSLENSKA landsliðið í körfuknattleik tapaði í gærkvöldi fyrir Króötum með 74 stigum gegn 82 í geysilega skemmtilegum og spennandi leik þar sem íslensku landsliðsstrákarnir sýndu og sönnuðu að þeir eiga fullt erindi í Evrópukeppnina. Staðan í leikhléi var 29:41 þannig að enn einu sinni náðu Íslendingar að skora fleiri stig en mótherjarnir í síðari hálfleik, eins og í fyrri tveimur Evrópuleikjum. Það munaði í raun aðeins hársbreidd að Íslendingar hefðu sett "körfuboltaheiminn" í Evrópu á annan endann; því það hefði svo sannarlega gerst hefði Króatía tapað fyrir Íslandi. Og það munaði ekki miklu.
Leikurinn byrjaði ekki gæfulega. Eftir mikið japl, jaml, og fuður á fyrstu mínútunum gerðu gestirnir fyrstu fimm stigin en fyrsta stig Íslands kom ekki fyrr en eftir þrjár og hálfa mínútu. Baráttan í vörninni var frábær og greinilegt var að strákarnir ætluðu að láta snillingana frá Króatíu hafa fyrir hlutunum. Og það fengu þeir svo sannarlega að gera. Ísland komst 10:8 yfir en þá kom örlítið bakslag í vörnina og munaði mestu að varnarmennirnir réðu ekki við hina hávöxnu miðherja Króata.
Byrjunarlið Íslands var nokkuð annað en í undanförnum leikjum því nú var Helgi Jónas Guðfinnsson leikstjórnandi og Guðjón Skúlason bakvörður með honum. Skemmst er frá því að segja að Helgi Jónas átti frábæran leik; var óhræddur við að keyra inní vítateiginn á móti öllum risunum sem þar voru og síðan skoraði hann eða gaf á félaga sína. Sannkallaður stórleikur.
Íslenska liðið lék það vel að þó svo Króatar hafi verið ánægðir með varnarleik sinn fengu íslensku strákarnir ágætis skot; það vantaði bara að hitta örlítið betur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Hermann Hauksson og Guðjón virtust þeir einu sem hittu eðlilega auk Helga Jónasar.
Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri. Króatar gerðu 12 á meðan Íslendingar gerðu tvö stig úr vítaskotum og staðan orðin 31:53 eftir fjögurra mínútna leik. En þá tóku íslensku strákarnir til sinna ráða og þar fór Helgi Jónas fremstur í flokki ásamt Friðriki Stefánssyni sem kom inná með miklum látum. Hann tróð meðal annars yfir risana frá Króatíu og það kunnu áhorfendur að meta.
Króatar gerðu ekki eitt einasta stig í fimm mínútur og þegar 6,55 mín voru eftir var staðan orðin 57:58. Íslenska liðið hafði gert 26 stig gegn fimm stigum Króata á ríflega átta mínútna kafla. Og nú var kátt í höllinni. Gat það verið að litla Ísland ætlaði að leggja snillingana frá Króatíu? Áhorfendur virtust altént trúa því að það væri hægt og stemmningin í Höllinni var frábær. En því miður. Þetta var of gott til að vera satt.
Króatar gerðu tíu stig í röð og náðu að halda þeim mun til leiksloka, nema hvað Falur lauk leiknum með þriggja stiga körfu og tapið því aðeins átta stig.
Landsliðið kom svo sannarlega á óvart. Menn vissu að það var til alls líklegt, en að leika þannig að eitt besta landslið Evrópu mátti þakka fyrir að tapa ekki, var meira en undirritaður átti von á. Ég tek ofan fyrir Jóni Kr. Gíslasyni landsliðsþjálfara og strákunum hans. Frábær árangur.
Helgi Jónas átti stórleik eins og áður segir, bæði í vörn og sókn. Friðrik Stefánsson átti einnig fínan leik og er greinilega laus við nýliðaskjálftann. Þó svo Teitur Örlygsson hafi ekki skorað mikið þá átti hann frábæran leik í vörninni og Hermann átti fínan leik framan af. Guðjón hitti vel en enn og aftur finnst mér hann leika of lítið. Guðmundur Bragason var eitthvað miður sín í fyrri hálfleiknum, en hann náði að rétta úr kútnum eftir hlé. Jón Arnar Invarsson lék vel þegar hann kom inná í síðari hálfleik en Sigfús Gizurarson átti í erfiðleikum í vörninni. Falur stóð sig ágætlega.
Morgunblaðið/Ásdís HERMANN Hauksson reynir eins og hann getur að ná knettinum af Gordan Zadravec í liði Króata. Skúli Unnar
Sveinsson
skrifar