AFTURELDING heldur toppsætinu í deildinni fram yfir áramót eftir öruggan sigur á Stjörnunni 23:18 í Garðabæ í gærkvöldi. Þrátt fyrir að Mosfellingar léku án landsliðsmannanna Bergsveins Bergsveinssonar, markvarðar og Páls Þórólfssonar, hornamanns, áttu þeir ekki í neinum vandræðum með Stjörnuna, sem hafði unnið fimm síðustu leiki sína fyrir leikinn í gær.
Afturelding í jóla-

fríið á toppnum

AFTURELDING heldur toppsætinu í deildinni fram yfir áramót eftir öruggan sigur á Stjörnunni 23:18 í Garðabæ í gærkvöldi. Þrátt fyrir að Mosfellingar léku án landsliðsmannanna Bergsveins Bergsveinssonar, markvarðar og Páls Þórólfssonar, hornamanns, áttu þeir ekki í neinum vandræðum með Stjörnuna, sem hafði unnið fimm síðustu leiki sína fyrir leikinn í gær. Allt stefnir í að Afturelding verji deildarmeistaratitilinn.

Afturelding hafði frumkvæðið í leiknum frá fyrstu mínútu. Það var aðeins fyrsta stundarfjórð unginn sem heimamenn náðu að hanga aftan í, en eftir það skildu leiðir. Vörnin var traust hjá Mosfellingum og Sebastian Alexandersson stóð vel vaktina í markinu. Það var ekki að sjá að fjarvera Bergsveins og Páls hefði haft nokkur áhrif á leik liðsins því þeir sem tóku stöður þeirra fylltu þær vel. Branislav Dimitrijew lék í vinstra horninu í stað Páls.

Það var eins og slökkt væri á Stjörnunni, sem hafði skinið svo skært í undanförnum leikjum. Liðið náði sér aldrei á strik og var sóknarleikur liðsins afskaplega slakur. Ingvar Ragnarsson var að verja ágætlega í markinu og þar af þrisvar sinnum eftir hraðaupphlaup. En það dugði ekki því oftar en ekki misstu þeir boltann klaufalega í hendur andstæðinganna. Það má vera að fjarvera Valdimars Grímssonar, þjálfara, sem hefur verið upptekinn með landsliðinu að undanförnu, hafi haft þessi áhrif. En það er engin afsökun því liðið á að geta gert miklu betur.

Gunnar Andrésson lék vel í sókn og vörn hjá Aftureldingu og er greinilega að komast góða æfingu. Hann sagði eftir leikinn að gott væri að fara í jólafríið með þriggja stiga forskot. "Já, það er þægileg tilfinning að vera á toppnum. Við ætlum að verja deildarmeistaratitilinn og þessi sigur var eitt skrefið af mörgum á þeirri leið. Ég er mjög sáttur við leik okkar, sérstaklega vegna þess að það vantaði bæði Bergsvein og Pál. Þessi leikur sýnir okkar styrk. Það virðist ekki skipta máli hverja vantar, því það kemur alltaf maður í manns stað," sagði Gunnar.

Hann sagði að þó svo að það væri nú komið frí á deildarkeppninni yrði æft af krafti yfir jólin því liðið ætti erfitt verkefni fyrir höndum eftir áramótin. "Það er oft næðingur á toppnum og öll liðin leggja ofurkapp á að vinna efsta liðið. En ég held að við séum með besta liðið og það á eftir að styrkjast enn frekar eftir áramót því nokkrir leikmenn hafa átt í meiðslum að undanförnu. Febrúar verður okkur erfiður því þá leikum við einnig í Evrópukeppninni. En ég get ekki annað en verið bjartsýnn á framhaldið," sagði Gunnar, fyrirliði Aftureldingar.

Sóknarnýting Aftureldingar í gær var 46% í öllum leiknum og þess má geta að síðustu fjórar sóknir liðsins mistókust. Stjarnan var hins vegar með aðeins 36% sóknarnýtingu, þar af 30% í fyrri hálfleik.

Morgunblaðið/Þorkell GUNNAR Andrésson lék vel í vörn og sókn hjá Aftureldingu. Hér tekur hann hraustlega á móti Heiðmari Felixsyni, sem reynir að koma skoti á markið. Valur B.

Jónatansson

skrifar