"Bara eitt skot!" Lokamínúturnar í leik ÍR og ÍBV voru vægast sagt æsispennandi. Þegar 40 sekúndur voru til leiksloka, staðan 28:28 og ÍR-ingar í sókn, hrópaði Matthías Matthíasson, þjálfari þeirra, til leikmanna: "Bara eitt skot!" Ólafur Gylfason tók þjálfarann á orðinu,
"Bara eitt skot!"
Lokamínúturnar í leik ÍR og ÍBV voru
vægast sagt æsispennandi. Þegar 40 sekúndur voru til leiksloka, staðan 28:28 og ÍR-ingar í sókn, hrópaði Matthías Matthíasson, þjálfari þeirra, til leikmanna: "Bara eitt skot!" Ólafur Gylfason tók þjálfarann á orðinu, skaut af miklu harðfylgi á mark ÍBV og knötturinn hafnaði í netinu. Þrátt fyrir ákafar tilraunir tókst Eyjamönnum ekki að jafna og úrslitin urðu 29:28.Frá fyrstu mínútu stefndi í hörkuleik. ÍR-ingar byrjuðu af miklum krafti og náðu fimm marka forystu, 10:5, og ekki stóð steinn yfir steini í leik ÍBV. Þorbergur Aðalsteinsson, þjálfari ÍBV, breytti þá varnarleik sínum og virtist það skila tilætluðum árangri. ÍR-ingar voru sem slegnir út af laginu og virtist leikur þeirra ætla að leysast upp. En þeir tóku sig saman í andlitinu og höfðu forystu í leikhléi.
Mikill hraði einkenndi síðari hálfleik og sáust glæsileg tilþrif hjá báðum liðum. Lokamínúturnar voru einn samfelldur hrunadans og brá þar fyrir öllum litbrigðum handboltaleiks. ÍR-ingar stóðu uppi sem sigurvegarar og verður sigur þeirra að teljast sanngjarn, þótt hann hefði allt eins getað fallið Eyjamönnum í skaut.
Það var gaman að sjá til ÍR-inga í þessum leik. Barátta, samheldni og leikgleði skópu öðru fremur sigurinn. Eyjamenn byrjuðu leikinn ekki vel en komust fljótlega í gang og léku á köflum prýðilega.
Þorbergur Aðalsteinsson, þjálfari ÍBV, var ekki sáttur við dómgæsluna í leiknum: "Ég hef ekki lagt það í vana minn að gagnrýna dómara en í kvöld voru þeir mjög lélegir. Þeir féllu í þá gryfju að láta leikmenn fara í taugarnar á sér."
Matthías Matthíasson, þjálfari ÍR, var ánægður með sína menn: "Sigurinn er stórt skref upp úr þeirri lægð sem liðið hefur verið í að undanförnu. Liðsheild og barátta gerðu þennan sigur að veruleika."
Borgar Þór
Einarsson
skrifar