Haukastúlkur
ofjarlar FH
HAUKASTÚLKUR reyndust of
stór biti fyrir hið spræka lið FH í gærkvöldi er liðin mættust í nágrannaslag í Kaplakrikanum. Þrátt fyrir góða baráttu lengi vel urðu FH-ingar að játa sig sigraða, 30:24, og skila um leið þriðja sæti deildarinnar til Gróttu/KR, sem vann Eyjastúlkur 19:18 á Seltjarnarnesinu.
Haukastúlkur skoruðu úr fyrstu sex sóknum sínum og léku sterka vörn til að byrja með en þó tókst Björk Ægisdóttur að sjá við henni og skora þrjú fyrstu mörk FH. FH-ingar virkuðu óöruggir og Haukar höfðu undirtökin fram í miðjan fyrri hálfleik og stöðuna 9:5. Þá komu þrjú mörk FH í röð, tvö tilþrifamikil frá FH- ingnum Guðrúnu Hólmgeirsdóttur og vítakast frá Þórdísi Brynjólfsdóttur. Við það tóku FH-ingar við sér og áttu ágæta möguleika á að jafna, sérstaklega með grimmri vörn í upphafi síðari hálfleiks en þá virtist liðið slaka aðeins á klónni, það örlaði á þreytu og það létu þrautreyndir Haukar ekki bjóða sér tvisvar skoruðu á stuttum tíma sex mörk gegn einu frá FH og munurinn orðinn sjö mörk, 24:17. Þrátt fyrir ágæta baráttu FH- stúlkna er kvennalið Hauka ekki líklegt lið til að missa slíka forystu frá sér.
FH-liðið sýndi á köflum mikla baráttu og lét finna rækilega fyrir sér í vörninni en sóknarleikurinn reyndist ekki eins beittur. Það skipti líka miklu að leikmenn gerðu sig seka um of mörg mistök. Hildur Erlingsdóttir og Guðrún áttu góðan leik, Þórdís var drjúg við vítaköstin og skoraði úr öllum sjö og Björk átti tvo góða kafla á fyrstu og síðustu mínútunum. Vaiva Drilingaite í markinu varði oft vel en liðsmenn hennar ekki nógu sterkir við fráköstin.
Leikreynslan skein í gegnum leik Hauka liðið hélt sínu striki og vék lítið af því og þegar mótherjar þeirra gáfu færi á sér gripu stúlkurnar tækifærið. Vörnin var grimm en sóknarleikinn báru uppi Judit Esztergal, Hulda Bjarnadóttir og Harpa Melsteð.
Grótta/KR í bronssæti
Vigdís Finnsdóttir, markvörður og fyrirliði Gróttu/KR, var í miklum ham á Seltjarnarnesi í gærkvöldi þegar Vestmannaeyingar sóttu lið hennar heim og átti stóran þátt í 19:18 sigri heimaliðsins því hún varði 26 skot, þar af tvö vítaskot. Leikurinn einkenndist af mörgum mistökum á báða bóga og í leikhléi var staðan 11:8, Gróttu/KR í vil, sem hafði undirtökin og náði mest í 17:13 eftir hlé. En Grótta/KR sofnaði á verðinum og Eyjastúlkur, sem yfirleitt leggja ekki árar í bát, náðu með seiglu að minnka muninn niður í eitt mark undir lokin.
Stefán
Stefánsson
skrifar