Hafa stað-
ið sig frá-
bærlega
Við erum búnir að spila þrjá
landsleiki núna á skömmum tíma. Þótt við höfum ekki náð að sigra, höfum við náð að standa í geysilega sterkum þjóðum," sagði Jón Kr. Gíslason, þjálfari íslenska landsliðsins. "Mér er þá fyrst og fremst frammistaða leikmannanna ofarlega í huga. Þeir hafa staðið sig frábærlega. Auk þess að leggja sig alla fram í leikina, hafa þeir náð að sýna sinn besta leik. Við erum að sanna fyrst og fremst fyrir okkur sjálfum hversu góðir körfuknattleiksmenn við erum.
Fyrri hálfleikurinn var ekkert sérstakur af okkar hálfu. Við vorum svolítið hægir. Í síðari hálfleik vorum við miklu ákveðnari, þótt við hefðum ekki byrjað mjög vel, en síðan komu þeir Jón Arnar og Friðrik inná og þeir stóðu sig mjög vel. Á því sést að við erum með "breiðan" leikmannahóp," sagði Jón.
Hvað fannst þér um leik Helga Jónasar?
"Helgi Jónas var frábær í þessum leik. Hann er góður í svona leikjum, er mjög laginn í gegnumbrotum. Mér fannst kominn tími til að hann fengi tækifæri og hann sýndi og sannaði að hann á það fyllilega skilið."
Hvað varð til þess að liðinu tókst að minnka muninn niður í aðeins eitt stig er um tíu mínútur voru eftir?
"Króatarnir hættu nánast, en við gáfumst aldrei upp. Við urðum alls ekki taugaóstyrkir. Leikurinn þróaðist bara okkur í óhag strax á eftir. Þeir gerðu m.a. þriggja stiga körfu fljótlega og þeir eru vitaskuld geysilega góðir körfuboltamenn."
Er árangur landsliðsins í síðustu þremur leikjum framar þínum björtustu vonum?
"Já, ég verð að segja það. Sérstaklega í þessum leik að standa í þessari þjóð. Mér er alveg sama um það með hvaða hugarfari Króatar komu hingað, því okkar vegna þurftu þeir virkilega að hafa fyrir sigrinum. Þeir gátu ekki verið að æfa eitthvað eða að gefa öðrum tækifæri. Þeir voru með sitt sterkasta lið inni á undir lokin og voru ábyggilega bangnir á tímabili," sagði Jón þjálfari.
"Erfitt en skemmtilegt"
Grindvíkingurinn Helgi Jónas Guðfinnsson var besti maður íslenska liðsins og gerði 21 stig. "Þetta var erfitt, en skemmtilegt. Mér tókst mjög vel upp í þetta sinn. Það þýðir ekkert annað en að vera óhræddur við þessa menn. Samt vorum við ragir í upphafi við að brjótast í gegn að körfunni og taka þau skot sem við erum vanir. Okkur gekk vel í síðari hálfleik, vörnin small saman, en ef til vill sofnuðu þeir á verðinum," sagði bakvörðurinn knái.
"Að maður skuli vera vonsvikinn. . ."
"Menn áttu ef til vill von á að við fengjum útreið, en fyrir leikinn taldi ég okkur geta staðið vel í þeim," sagði Guðmundur Bragason, fyrirliði íslenska liðsins. "En þetta er hörkugott lið. Allir leikmenn þess eru atvinnumenn með sterkum liðum í Evrópu. Þetta var því mikill sigur fyrir okkur. Mér fannst við samt byrja svolítið hikandi í fyrri hálfleik og misstum þá nokkuð framúr okkur, en í síðari hálfleik fórum við að leika að okkar hætti. Ungu strákarnir, Helgi Jónas og Friðrik, komu sterkir inn og stóðu sig mjög vel. Mér fannst þetta því mikill sigur fyrir körfuknattleikinn hér heima. Að maður skuli vera vonsvikinn yfir því að tapa fyrir Króatíu. . .!" Guðmundur yppti öxlum.
"Við áttum möguleika um tíma, en við vorum óheppnir. Þeir fengu nokkur auðveld sóknarfráköst og sigu framúr aftur, en það er mjög gott að minnka muninn eins og við gerðum á móti svona góðu liði. Það sýnir hver framförin hefur verið hjá okkur," sagði fyrirliðinn.
Edwin
Rögnvaldsson
skrifar