LEIKUR KA og Vals eru iðulega þrotlaus og spennandi barátta frá upphafi til enda og lengi vel leit út fyrir að viðureign liðanna í KA-heimilinu í gærkvöld yrði sama marki brennd. Stálin stinn mættust, það var frost og það var funi og leikmenn lentu milli steins og sleggju í geysisterkum vörnum.

Öruggur

sigur Vals

á KA LEIKUR KA og Vals eru iðulega þrotlaus og spennandi barátta frá upphafi til enda og lengi vel leit út fyrir að viðureign liðanna í KA-heimilinu í gærkvöld yrði sama marki brennd. Stálin stinn mættust, það var frost og það var funi og leikmenn lentu milli steins og sleggju í geysisterkum vörnum. En Valsmenn náðu fimm marka forystu í upphafi seinni hálfleiks, héldu henni nánast óskertri til leiksloka og sigruðu með 25 mörkum gegn 22. Já, varnirnar voru sterkar í upp hafi og staðan var 3:4 eftir 10 mínútna leik. Valsmenn náðu þá þriggja marka forskoti og heimamenn þurftu að taka á öllu sínu til að vinna það upp. Það tókst á 27. mín. er Yala jafnaði í 10:10 en síðan komu þrjú Valsmörk í röð og staðan í leikhléi 10:13. Fyrri hálfleikur lýsir sér vel í því að 8 sinnum var dæmt vítakast og þar af nýttust sex. Annars voru komnar brotalamir í vörn KA, t.d. skoraði Davíð Ólafsson, hornamaður Vals, 3 mörk utan af velli í hálfleiknum og er hann ekki með hávaxnari mönnum. Valsmenn skoruðu tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik og staðan 10:15 var stærri biti en vængstýft lið KA réð við. Jaxlarnir frá Hlíðarenda voru klókir og yfirvegaðir og Guðmundur Hrafnkelsson varði vel. KA tókst að minnka muninn í 16:19 um miðjan hálfleikinn en lenti þá í því að missa tvo leikmenn út af með skömmu millibili og ekki bætti úr skák þegar Atli þjálfari Hilmarsson fékk rautt spjald, sem þýddi að hann gat ekki stjórnað liði sínu seinni hluta hálfleiksins auk þess sem einn útileikmaður varð að fara af velli. Fyrr í hálfleiknum hafði Vladimir Goldin orðið fyrir meiðslum og kom ekki aftur inn á. Við þessum áföllum máttu KA-menn ekki og Valsmenn héldu örugglega 5­6 marka forystu til leiksloka. Guðmundur Hrafnkelsson átti stórleik í marki Vals fyrir aftan sterka vörn. Hann tók Goldin og Jóhann G. Jóhannsson í bakaríið og það var aðeins Sævar Árnason sem sýndi lit hjá KA. Yala var markahæstur en gerði aragrúa mistaka. Sverrir Björnsson fór í skyttustöðuna eftir að Goldin meiddist en skaut varla að marki þegar liðið þurfti sárlega á þrumufleygum að halda. Davíð Ólafsson lék mjög vel fyrir Val, sömuleiðis Einar Örn Jónsson. Þá voru Jón Kristjánsson, Ingi Rafn Jónsson og Sigfús Sigurðsson traustir. Stefán Þór Sæmundsson skrifar frá Akureyri