OFT er sagt að sigur í handknattleik byggist á góðum varnarleik og varnarleikur sé höfuðatriði til þess að ná árangri í íþróttinni. Þessi fullyrðing var undirstrikuð í íþróttahúsi Fram við Safamýri í gærkvöldi þegar heimamenn sigruðu FH-inga 26:20.

Varnarsigur

í Safamýrinni OFT er sagt að sigur í handknattleik byggist á góðum varnarleik og varnarleikur sé höfuðatriði til þess að ná árangri í íþróttinni. Þessi fullyrðing var undirstrikuð í íþróttahúsi Fram við Safamýri í gærkvöldi þegar heimamenn sigruðu FH-inga 26:20. Sigurinn var fyrst og fremst innsiglaður með frábærum varnarleik Framara og stórkostlegri markvörslu Reynis Þórs Reynissonar sem fór hamförum fyrir aftan nær ókleifan Fram-múrinn undir stjórn byggingameistarans Olegs Titovs.

Framarar hófu strax og leikurinn var flautaður á að reisa varn armúr og nær skyttulaust lið Hafn firðinga lenti strax í vanda við að leita leiða framhjá múrnum. Í þeim tilfellum sem það tókst tók ekkert betra við því Reynir varði oft í opnum færum. Hinum megin vallarins fór Suik Hyung Lee á kostum og varði jafnt langskot, gegnumbrot og hraðaupphlaup. Var því lengi jafnt á með liðunum þar sem vörn FH var einnig ágæt og hafði greinilega farið vel yfir leikkerfi Fram. Þegar 20,40 mínútur voru liðnar af leiknum og staðan jöfn varði Reynir annað vítakast sitt. Þá urðu straumhvörf. Félagar Reynis nýttu sér byrinn og sögðu skilið við gesti sína og náðu á skömmum tíma fjögurra marka forskoti, 13:9. FH-ingum tókst með góðri markvörslu Lees að nýta sér tvö hraðaupphlaup til tekna og minnka muninn í 13:11 fyrir hálfleik.

Ekki minnkaði Fram-múrinn er kom fram í síðari hálfleikinn. Reyndar opnuðust á honum lítil göt fyrst í hálfleiknum og FH-ingum tókst með mikilli seiglu að minnka muninn í 15:14 þegar 5,11 mín. voru liðnar. Þá kom 11 mínútna kafli þar sem gestirnir fundu enga leið framhjá veggnum ógurlega. Á þessum kafla gerðu Framarar fimm mörk í röð og komust í 20:14. Þó svo að enn væru rúmar 13 mínútur eftir voru úrslitin ráðin. FH-ingar höfðu engin tromp uppi í erminni og heimamenn höfðu öll ráð í hendi sér. Þeir létu þau ekki af hendi.

Fram-liðið lék að þessu sinni nær því eins vel og það gerði best í fyrravor þegar það var í úrslitakeppninni. Styrkleiki liðsins kom berlega í ljós í vörninni og markvörslu Reynis Þórs. Þess vegna fær liðið mikið af hraðaupphlaupum sem telja drjúgt þó Lee hafi reynst þeim erfiður ljár í þúfu um tíma. Þá var nokkuð um fljótfærni í fyrri hálfleik.

Það eru eflaust engin ný sannindi að Guðjón Árnason er eina skyttan sem stendur undir nafni í FH-liðinu og þegar hann fær slíkan múr sem Fram-vörnin var að þessu sinni er ekki nema von að illa gangi. Liðið brotnaði við mótspyrnuna í sókninni sem kom niður á baráttuandanum í vörninni.

Morgunblaðið/Þorkell

SIGURPÁLL Árni Aðalsteinsson var vörn FH stöðug ókn í leiknum og hér gerir hann eitt fimm marka sinna án þess að Guðmundur Narfi Gunnarsson og Lárus Long komi við vörnum. Ívar

Benediktsson

skrifar