Í GREIN sem birtist í Morgunblaðinu 18. nóvember síðastliðinn fjallaði ég um ytri umgjörð Laugavegar og nú ætla ég aðeins að fjalla um innviði hans. Flest viljum við Reykjavíkurbúar eiga "lifandi miðborg". Til þess að standa undir því nafni þarf þar að vera fjölbreytt mannlíf sem aðeins næst með margþættri starfsemi; blómlegri verslun, þjónustufyrirtækjum og íbúðabyggð.
Laugavegurinn
íslensk verslunargata eða erlend?
Það er mér áhyggjuefni, segir Elín Ebba Ásmundsdóttir , ef þróun miðborgarinnar verður sú að sérkenni gamla miðbæjarins verða smám saman þurrkuð út.
Í GREIN sem birtist í Morgunblaðinu 18. nóvember síðastliðinn fjallaði ég um ytri umgjörð Laugavegar og nú ætla ég aðeins að fjalla um innviði hans.
Flest viljum við Reykjavíkurbúar eiga "lifandi miðborg". Til þess að standa undir því nafni þarf þar að vera fjölbreytt mannlíf sem aðeins næst með margþættri starfsemi; blómlegri verslun, þjónustufyrirtækjum og íbúðabyggð. Því miður er það staðreynd að verslun er á undanhaldi í miðborg Reykjavíkur. Alvarlegt ástand er nú þegar í Kvosinni og búast má við að það geti fært sig upp eftir Laugaveginum innan skamms, ef ekki finnst lausn.
Með því að skoða þróun Laugavegarins síðustu áratugi má glöggt sjá að hér vantar skýra stefnu borgaryfirvalda. Ekki er til deiliskipulag fyrir þetta svæði miðborgarinnar og ákvarðanir borgaryfirvalda vegna nýbygginga virðast af þeim sökum oft tilviljanakenndar. Borgarskipulagið þarf að spinna fram lausnir fyrir hvern einstakan byggingarreit og oft virðast því hagsmunir byggingaraðila ráða ferðinni. Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á embættismenn borgarinnar heldur undirstrika þörfina fyrir að heildarstefna og deiliskipulag liggi fyrir áður en frekari uppbygging verður leyfð við Laugaveg.
Mikið offramboð er á verslunar- leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og með tilkomu nýrrar verslunarmiðstöðvar í Smárahvammi og víðar, blasir við enn harðnandi samkeppni leigusala. Samkvæmt greinargerð Þróunarfélags Reykjavíkur stendur nú autt verslunarhúsnæði á 23 stöðum í miðborginni. Samt er mikill þrýstingur á borgaryfirvöld að veitt verði leyfi til enn fleiri nýbygginga við Laugaveginn með enn meira verslunarrými. Hér er eitthvað sem ekki stemmir. Ein helstu rök viðskiptajöfra sem byggja leiguhúsnæði eru þau að verslunarrými þurfi að vera a.m.k. 300500 m , annars líti erlendar verslunarkeðjur ekki við húsnæðinu. Þá verð ég að spyrja: Er það lausnin að fylla Laugaveginn útibúum frá erlendum verslunarkeðjum? Má ekki finna betri lausn? Væri ekki nær að efla verslun við Laugaveginn sem séríslenska verslunargötu? Þetta snýr bæði að Íslendingum sjálfum og ferðamanna"iðnaðinum".
Hvað okkur Íslendinga varðar, er ég nokkuð sannfærð um hvað það er sem við sækjumst eftir þegar við verslum við Laugaveginn: Við erum að sækjast eftir vörum, þjónustu, andrúmslofti og umgjörð sem ekki er í boði verslunarmiðstöðva í útjöðrum borgarinnar. Umhverfi Laugavegarins á þá líka þátt í vali okkar. Þar eru ennþá persónuleg og vinaleg hús sem laða okkur að sér. Ef við aftur á móti viljum kaupa "stórt" er mun þægilegra að gera það í fyrrnefndum verslunarmiðstöðvum með nægum ókeypis bílastæðum.
Hvað varðar ferðamennskuna, tel ég að megi stórauka gildi Laugavegarins sem verslunargötu með því að draga fram einkenni hans sem íslenskrar verslunargötu. Mér myndi sem ferðamanni e.t.v. frá hinum enda hnattarins ekki finnast neitt merkilegt að geta verslað í nákvæmlega eins búðum og heima, þó svo að ég fengi vöruna á mun lægra verði. Mér skilst líka að það séu ekki beint þeir efnaminnstu sem koma til Íslands. Það er ekki nema von að Gullfoss og Geysir verði ofan á í samkeppni við Laugaveg ef ekki er boðið upp á neitt séríslenskt eða einstakt við Laugaveginn. Eftir hverju sækjumst við sjálf þegar við ferðumst til annarra landa? Varla hangikjöti í Kína, blóðmör á Manhattan eða lopapeysu í Honolulu?
Sem íbúi í bakhúsi við Laugaveg síðastliðin 13 ár hef ég haft tækifæri til að fylgjast með ferðafólki og sjá eftir hverju það sækist. Það eru verslanir sem hafa eitthvað íslenskt eða eitthvað sérstakt upp á að bjóða, og þegar teknar eru upp myndavélar, er það til að mynda litlu sérkennilegu íslensku húsin, ekki nýju, stóru verslunarhúsin.
Það er mér áhyggjuefni ef þróun miðborgarinnar verður sú að sérkenni gamla miðbæjarins verða smám saman þurrkuð út. Uppi sætum við með afraksturinn; líflausa, daufa og grámyglulega miðborg án allra sérkenna og íslenskra einkenna; borg sem gæti verið hvar sem er og er ekkert sérstök.
Á ekki elsta verslunargata Reykjavíkur eitthvað betra skilið?Höfundur er iðjuþjálfi og bakhússbúi. Elín Ebba Ásmundsdóttir