Efnisval og söngur: Jón Rósmann Mýrdal. Meðsöngvari: Rósa Kristín Baldursdóttir. Píanó: Heiðdís Lilja Magnúsdóttir og (Í dag) Ólafur Vignir Albertsson. Strengir, hljómborð: Pétur Hjaltested. Klarinett, bassaklarinett, flautur, sópran sasófónn: Sigurður Flosason. Óbó, enskt horn: Ólafur Flosason. Önnur hljóðfæri: Pétur Hjaltested. Útsetningar, stjórn upptöku og hljóðblöndun: Pétur Hjaltested.
Lögin þeirra ömmu, pabba og mömmu

TÓNLIST

Hljómdiskar

JÓN RÓSMANN MÝRDAL: NÁTTÚRUNNAR BÖRN

Efnisval og söngur: Jón Rósmann Mýrdal. Meðsöngvari: Rósa Kristín Baldursdóttir. Píanó: Heiðdís Lilja Magnúsdóttir og (Í dag) Ólafur Vignir Albertsson. Strengir, hljómborð: Pétur Hjaltested. Klarinett, bassaklarinett, flautur, sópran sasófónn: Sigurður Flosason. Óbó, enskt horn: Ólafur Flosason. Önnur hljóðfæri: Pétur Hjaltested. Útsetningar, stjórn upptöku og hljóðblöndun: Pétur Hjaltested. Hljóðritað í Hljóðsmiðjunni 1997. Blæbrigði ehf., Garðhúsum 27.

ALLTAF hendir mann eitthvað skemmilegt, nú síðast þessi hljómdiskur ­ sem mér datt sísona í hug að væri eitthvert "nostalgíu-flipp", kannski bara skrítið og skondið grín! Meira að segja kápan á bæklingi þótti mér svolítið fyndin þó falleg sé ­ í ek. "näívum-post-modern-stíl". Ég var því töluvert spenntur að heyra í Jóni Rósmann Mýrdal, því hina þekki ég flesta (sem músíkanta) og það af mjög góðu. Og lögin kannast hvert mannsbarn við sem komið er til "vits" og ára.

Svona setur maður sig stundum í skrýtnar stellingar gagnvart því sem kemur manni svolítið í opna skjöldu. Svo reyndist þetta einfaldlega vera ekta fallegur hljómdiskur með gömlum og góðum lögum, m.a. eftir þá Sigfús Halldórsson, Kristin Reyr, Oddgeir Kristjánsson, Jón Laxdal og Al Jolson, svo einhverjir séu nefndir (er víst búinn að nefna helminginn, því lögin eru ekki nema tíu!) ­ framreitt af glimrandi hljóðfæraleikurum í einkar viðeigandi stíl, sem mér skilst að Pétur Hjaltested sé ábyrgur fyrir öðrum fremur (útsetningar og stjórn upptöku m.fl.).

Skemmst er frá því að segja að Jón Rósmann Mýrdal er ágætur söngvari með fína rödd, a.m.k. í svona tónlist, og sumt syngur hann með virkilegum tilþrifum (svosem Í dag, við ágætan undirleik Ólafs Vignis) og fínum töktum, og mættu ýmsir í bransanum læra af honum ýmislegt, svo maður sé hæfilega loðinn og forðist að móðga nokkurn.

Efnið hefði mátt vera helmingi meira, en gott svo langt sem það nær.

Hljóðvinnsla er meira eða minna með "hljómskála-ekkói", fremur en gerilsneyddu stúdíóbragði, sem er einkar notalegt fyrir svona músík.

Oddur Björnsson