Margt er skrýtið í skóginum
BÓKMENNTIR
Barnabók
KYNLEGUR KVISTUR Á
GRÆNNI GREIN
eftir Sigrúnu Eldjárn. Forlagið, 1997 [36] s.
Í ÞESSARI sögu leiðir höfundur okkur inn í kynjaskóg þar sem stúlkan Harpa er leiðsögumaður. Með henni er Hrói sem er ekki sérlega hugrakkur og vill gjarnan halda sig til hlés fyrir aftan vinkonu sína. Harpa veit allt um trén og skóginn enda búin að vera á námskeiði. En svo fer þó að í skóginum er ýmislegt sem ekki var kennt um á námskeiðinu hennar Hörpu. Þar leynast ýmsar kynjaverur eins og vera ber í ævintýraskógi. Veslingurinn hann Kvistur kemur fyrstur til sögunnar. Hann er að sjálfsögðu í grænum strigaskóm og biður sífellt afsökunar á sjálfum sér því ekki vill hann valda neinum ónæði. En hann þarf að finna systur sína hana Greinaflækju sem er baldin og áður en hún veit af er hún komin í lífsháska. En með nútímatækni tekst þeim að bjarga henni og slímuga skrímslið verður af bráð sinni. Allt fer vel að lokum
Myndir Sigrúnar eru alltaf fullar af ýmiss konar smáatriðum sem lítil börn eru hugfangin af. Alls staðar eru aukapersónur sem eru þátttakendur í sögunni þó aldrei sé á þá minnst í textanum. Í þetta sinn kemur öll hersingin strax innan á kápu og þau fylgja sögunni og koma fram á hverri opnu og fyrir utan þau sex sem eru með frá upphafi bætist kóngulóin við og eitthvert fyrirbrigði sem aðeins hefur augu. Það sem vekur þó sérstaka athygli við myndsköpun Sigrúnar í þessari bók er að söguhetjan er þeldökk stúlka og hvergi á það minnst í sögunni að hún sé "öðruvísi" en Hrói. Þetta minnir á, að þegar í fyrsta sinn var búin til myndabók um svart barn í Bandaríkjunum, án þess að minnst væri á að það væri ekki hvítt, þótti sem samfélagið væri að breytast til meiri víðsýni. Að vísu er þetta ævintýri en ekki saga úr Reykjavík, en ef þessi bók markar einhver slík tímamót í okkar bókmenntasögu er vel tími til kominn.
Sigrún Klara Hannesdóttir
Sigrún Eldjárn