Halastjarnan
BÓKMENNTIR
Barnabók
HALASTJARNA
eftir Þórarin Eldjárn. Sigrún Eldjárn
gerði myndirnar. Forlagið, 1997 [44] s.
ÞAÐ eru ekki margir höfundar sem leggja í að skrifa ljóðabækur fyrir börn. Þórarinn Eldjárn hefur þó rutt þessa braut með tveim ljóðabókum sem hafa hlotið verðskuldaða athygli. Í tveimur fyrri bókum sínum, Óðflugu frá 1991 og Heimskringlu frá 1992, lék hann sér að íslensku máli og vakti athygli á ýmsum furðum íslensks máls svo sem mismunandi merkingu orða eftir því hvernig þeim er skipt í atkvæði. Heiti beggja bókanna eru einmitt byggð á þessari sérkennilegu tvíræðni.
Halastjarnan er ljóðabók þar sem höfundur leikur sér að því að yrkja undir ýmsum bragarháttum en aðalatriðið er ekki þessi sama tvíræðni og í fyrri bókunum tveim. Ljóðin virðast ekki eiga neitt sameiginlegt annað en að vera skemmtileg samsetning um hversdagslega hluti sem eru gerðir ævintýralegir með kúnstugum viðbótum og frásagan er bundin í rím og ljóðstafi. Halastjarnan vingsar halanum í nætursvalanum. LHG, öðru nafni litla gula hænan, hættir að vera fórnfús og góð og fær sér símsvara sem endurtekur í sífellu EKKI ÉG. Tölvuleikurinn gerir menn mosavaxna þar sem ekki er hægt að hætta enda eru verur inni í tölvunni sem eru að leika með strákinn. Við sjáum vandræði aðstandanda þegar vorið vill ekki koma, svo aðeins séu dæmi tekin um efni ljóðanna.
Myndir Sigrúnar undirstrika hugmyndaflug sagnanna og gera textann ennþá fyndnari þar sem hún segir svo margt með myndunum sem ekki kemur fram í textanum. Hjá henni er ekkert sjálfsagðara en hestur sé í bláum strigaskóm, með taglið allt í slaufum og sé sýndur niðursokkinn í lestur enda væntanlega lestrarhestur ekki síður en Lára sem ljóðið er um. Sigrún tengir þessi ljóð saman í samfellu með því að halastjarnan er á hverri síðu sem viðbót við annað sem um er fjallað.
Ljóð Þórarins eru smellin, auðskilin og full af skringilegum hugdettum. Ekki er nokkur vafi að þessi bók getur kitlað hláturtaugar þeirra sem lesa, hvort sem er textinn eða myndirnar, fyrir utan það að hún er kjörið tæki fyrir þá sem vilja kynna ungum lesendum leyndardóma bragfræðinnar.
Sigrún Klara Hannesdóttir
Þórarinn Eldjárn